Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til þess að geta svarað þessari spurningu þarf fyrst að skoða hvað það þýðir að eitthvað sé „bannað“. Lög geta innihaldið bannreglur, það er reglur sem banna einhverja háttsemi, jafnvel að viðlagðri refsingu. Slíkar reglur geta því leitt til þess að ákveðin háttsemi telst bönnuð.
En lög eru ekki það eina sem banna háttsemi. Sumt gerum við ekki vegna þess að það samræmist ekki góðum siðum og venjum - það er ekki siðferðilega viðurkennt. Til dæmis er ólíklegt að maður myndi alltaf öskra á fólk sem maður á í samskiptum við, í stað þess að tala eðlilega hátt - þó að slík háttsemi sé ekki bönnuð með lögum. Sumt gerum við nefnilega ekki, einfaldlega af tillitsemi við aðra eða af því að við vitum að háttsemin hefði truflandi áhrif á umhverfi okkar.
Fyrrgreind skipting bannreglna í annars vegar bannreglur laga og bannreglur siðferðis er þó ekki klippt og skorin, því stundum eru siðareglur lögfestar með lögum eða reglum.
Í settum lögum frá Alþingi er ekki að finna lagaákvæði sem banna lygar á þingi sérstaklega. Þó má halda því fram að af siðareglum alþingismanna megi leiða að lygar á Alþingi séu bannaðar. Myndina tók Kristinn Ingvarsson.
Af þessu leiðir að það er í fyrsta lagi athugunarefni hvort lygar á Alþingi séu bannaðar með lögum. Í settum lögum frá Alþingi er ekki að finna lagaákvæði sem banna lygar á þingi sérstaklega. Þann 16. mars 2016 voru aftur á móti samþykktar siðareglur fyrir alþingismenn. Í 5. gr. hátternisreglnanna er að finna meginreglur um hátterni alþingismanna. Þar segir í a-lið 1. mgr. að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika. Athyglisvert er að heiðarleiki er sérstaklega nefndur í ákvæðinu. Það bendir til þess að ætlunin sé að leggja áherslu á það að alþingismenn séu heiðarlegir, það er komi hreint fram og segi sannleikann. Því mætti halda því fram að siðareglurnar innihaldi óbeint bann við lygum á Alþingi.
Siðareglur fyrir alþingismenn eru einmitt dæmi um það að búið er að setja reglur sem innihalda leiðbeiningar um háttsemi sem telst siðferðilega rétt. Reglurnar innihalda þó ekki beinlínis bannreglu við lygum, heldur einhvers konar leiðarvísi um það hvernig æskilegt er að hegða sér á Alþingi. Þó má halda því fram að af siðareglunum megi leiða að lygar á Alþingi séu einmitt bannaðar.
Auk þess mætti halda því fram að lygar á Alþingi brjóti í bága við almennt siðferði. Flestir telja að það sé ekki æskilegt að ljúga að öðrum og segja því yfirleitt sannleikann. Til dæmis er það svo að þrátt fyrir að fyrstu siðareglur alþingismanna hafi verið samþykktar árið 2016 gilti líklega áður óskráð regla um það að alþingismenn skyldu segja sannleikann á þingi.
Frekara lesefni:
Iðunn Garðarsdóttir. „Er bannað að ljúga á Alþingi?“ Vísindavefurinn, 27. janúar 2017, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72428.
Iðunn Garðarsdóttir. (2017, 27. janúar). Er bannað að ljúga á Alþingi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72428
Iðunn Garðarsdóttir. „Er bannað að ljúga á Alþingi?“ Vísindavefurinn. 27. jan. 2017. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72428>.