Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað hafa orðið mörg gos í Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi á sögulegum tíma og nútíma og hvaða ár urðu þessi gos?

Guðrún Larsen, Freysteinn Sigmundsson og Andrew Dugmore

Eldstöðvakerfi kennt við Eyjafjallajökul nær yfir jökulinn sjálfan og fjalllendið sem hann situr á. Gos í eldstöðvakerfinu hafa verið fátíð og öll þekkt gos fremur lítil. Erfitt hefur reynst að tímasetja hraunin sem liggja hátt. Þau eru jarðvegsvana, og í mörgum tilvikum hefur jökulhlaup farið yfir þau eða jökull skriðið út á hraun og gíga. Auðveldara er að tímasetja gjóskulögin, en þau eru fá og smá. Um 20 aðgreind hraun frá forsögulegum tíma hafa verið kortlögð austan og vestan við íshettu Eyjafjallajökuls. Öll eru þau úr basaltríku andesíti að undanskildum tveimur basalthraunum og einu súru hrauni. Líklegt er að hluti þessara hrauna sé eldri en frá nútíma.[1]

Á Fimmvörðuhálsi eru móbergshryggir sem mynduðust í gosum undir jökli á síðasta jökulskeiði, og að minnsta kosti sex til átta hraun sem hafa runnið eftir lok síðasta jökulskeiðs í núverandi landslagi.[2] Vegna ellilegs yfirbragðs eru flest hraunanna talin vera frá fyrri hluta nútíma. Samanlagt rúmmál allra hraunanna er um 0,26 rúmkílómetrar,[3] og lengst hafa hraun flætt um sex kílómetra frá upptökum.[4]

Eyjafjallajökull gaus síðast árið 2010.

Fyrir utan eldsumbrotin 2010 (sem lesa má um í nokkrum öðrum svörum hér á vefnum) er aðeins vitað um þrjú gos á sögulegum tíma í eldstöðvakerfinu: Lítið sprengigos í toppgíg jökulsins 1821-1823, ef til vill í tengslum við smágúl sem náði þó ekki til yfirborðs,[5][6] annað minni háttar sprengigos 1612 eða 1613, líklega efst í jöklinum,[7][8] og gos um 920, sennilega við Skerin. Það olli hlaupi niður í Langanes undir norðurhlíðum Eyjafjallajökuls.[9][10] Öll þrjú urðu um svipað leyti og gos í nágrannaeldstöðinni Kötlu.

Eldgosið 1821-1823

Gosinu 1821-1823 er lýst í samtímaheimildum. Gosmökkur sást fyrst upp úr hádegi 20. desember 1821. Sprengigosið virðist alltaf hafa verið fremur lítið og með löngum hléum. Á árinu 1823 virðist eingöngu hafa verið um gufuuppstreymi að ræða. Töluvert gjóskufall varð þó í nærsveitum fyrstu gosdagana og sumarið 1822, en mest féll á heiðarnar ofan byggða. Gjóskan barst aðallega til suðurs og vesturs yfir Eyjafjallasveit og Landeyjar, og gjóskuvottur barst að sögn vestur á Seltjarnarnes.[11] Gjóskulagið er gráleitt og fíngert og óverulegt eins og það finnst í jarðvegi umhverfis Eyjafjallajökul nú, minna en 0,01 rúmkílómetrar.[12]

Í gosinu 1821-1823 urðu nokkur jökulhlaup, sum mun meiri að umfangi en vorið 2010. Í Klausturpóstinum segir um fyrstu gosdagana 1821: „uxu vötn og fljót nokkuð.“[13] Um atburði fyrri hluta árs 1822 segir meðal annars: „Einstök, þó ekki stór skaðvæn, vatnsflóð spýttust við og við úr þessum jökli og féllu vestur í Markarfljót, með nokkru Jökulhruni, uns hann, þann 26ta Júnii spjó á ný …“ „Jökulhlaupi eigna menn og ofvöxt í Holts-á undir Eyjafjöllum, sem flóa skal nú þar yfir og skémma mjög lönd þess Presta-kalls, og gjöra að svo stöddu veru Presta og margra búenda í þeirri Dals Sóknum framvegis mjög svo tvísýna og óbjargvænlega.“[14] Um sumarið var vöxtur í Markarfljóti og Þverá eins og getur í bréfi Steingríms Jónssonar prófasts í Odda. Lýsing á jökulhlaupi undan Gígjökli í þessu gosi var skráð hálfri öld síðar, en þar segir að flotið hafi yfir allar eyrar milli Langaness og Fljótshlíðar og farveg Þverár og alla farvegi Markarfljóts, forna og nýja, hafi fyllt.[15] Mælingar á farvegum Þverár og Markarfljóts benda til að hlaupið gæti hafa verið 12.000-29.000 rúmmetrar á sekúndu, þegar það var í hámarki.[16]

Gos í Eyjafjallajökli 8. júlí 1822. Vatnslitamynd eftir E. Bruhn, varðveitt í Kongunsbókhlöðu, Kaupmannahöfn.

Þótt gosið í Eyjafjallajökli 1821-1823 teljist lítið gos, olli það samt verulegu tjóni, bæði vegna gjóskufalls og jökulhlaupa eða vatnavaxta. Gjóskan spillti bæði vetrar- og sumarbeit, og fé fóðraðist illa svo að lóga þurfti gripum.[17] Liðaveiki og hnútar á beinum í búpeningi hafa líklega stafað af flúoreitrun. Jökulhlaup og vatnavextir ollu einhverjum landskemmdum, auk þess að vera farartálmar. Í ítarlegum samtímalýsingum í bréfum og skýrslum um gosið og áhrif þess, er þess hvergi getið að jarðskjálftar hafi fundist, þótt miklir dynkir fylgdu, og raunar tekið fram að engra hræringa hafi orðið vart.[18]

Eldgosið 1612-1613

Lýsingar á gosi í Eyjafjallajökli 1612 eða 1613 eru ekki ótvíræðar. Gjóskuvottur sem gæti verið úr þessu gosi hefur aðeins fundist á einum stað. Daniel Vetter, tékknesk-pólskur ferðalangur, kom hingað til lands í upphafi sautjándu aldar. Hann skrifaði ferðabók um Íslandsferð sína sem kom út 1637 og hefur verið þýdd á íslensku.[19] Daniel lýsir eldgosi veturinn 1613 á eftirfarandi hátt:

Margt er þar annarra stórra fjalla, þar sem einnig gjörast ýmis sérstök og undarleg fyrirbrigði. Eitt þeirra er sextán mílur frá Skálholti; þar bar svo til veturinn 1613 að á því dundu látlaust reiðarþrumur og hræðileg högg þrjá daga, líkt og skotið væri úr einhverjum óskaplega stórum og mörgum fallstykkjum. Svo logaði allt fjallið, og eldurinn stóð upp af tindinum eins og kyndill, og féll það og rann með feiknalegum dunum og dynkjum ofan í mikið vatn, sem þar var hjá, þrjátíu faðma á dýpt, og brenndi það og þurrkaði upp. Svo fyllti fjallið djúpið af gjalli og brenndu grjóti.

Þessa lýsingu Daniels Vetters á gosi í fjalli 16 mílur frá Skálholti má túlka á ýmsa vegu. Á kortum kenndum við Guðbrand Skálholtsbiskup er Eyjafjallajökull sýndur í um 16 mílna (þýsk míla) fjarlægð frá Skálholti, Mýrdalsjökull í 18-20 mílna fjarlægð og Sólheimajökull mun fjær. Daniel dvaldi meðal annars í Skálholti í boði Odds biskups og gæti hafa tölur um fjarlægðir frá heimamönnum. Fjallið „rennur“ ofan í „mikið vatn,“ en ekki í sjó fram. Þetta tvennt styður fremur að lýsingin eigi við gos í Eyjafjallajökli en Kötlu, en rökin eru þó veik. Þetta er tíundað hér vegna þess að ekki er hægt að líta fram hjá þeim möguleika að þar sé verið að lýsa hlaupi sem kom niður hlíðar Eyjafjallajökuls og bar með sér töluvert af föstu efni. Vera má að „vatnið“ eigi við lón framan við Gígjökul eða Steinholtsjökul. Einnig er mögulegt að átt sé við vötn sem voru einhvers staðar í nágrenni Eyjafjallajökuls, en hurfu, „fjallið fyllti djúpið af gjalli og brenndu grjóti.“ Ólíklegt er, en ekki ómögulegt, að átt sé við Holtsós, það vatn er enn til.

Lýsingar í heimildum á gosum og hlaupum í Eyjafjallajökli og Kötlu á árunum 1612-1613 eru fremur ruglingslegar og blandnar. Öruggt má telja að hlaup hafi fylgt Kötlugosinu 1612 sem rann meðal annars ofan í Álftaver, en ákveðin atriði í frásögn Daniels Vetter má túlka svo að hlaup, hugsanlega frá Eyjafjallajökli, hafi runnið út í stöðuvatn og fyllt það. Varlegast er að gera ráð fyrir að gosi í Eyjafjallajökli á árunum 1612-1613 hafi fylgt hlaup eða vatnsflóð, þótt ekkert verði sagt með vissu um stærð eða hlaupleiðir.

Eldgos og hlaup um 920

Engar heimildir eru um eldgos við Kerin í norðvestanverðum Eyjafjallajökli. Þau eru hryggur upp í norðvestanverðan jökulinn, um fjögurra kílómetra langur og að hluta úr gjall- og hraunkarga.[20] Ummerki um hlaup sem flæddi niður norðurhlíðarnar hafa verið tímasett með gjóskutímatali og eru frá því um 920. Aðeins eldgos í eða að hluta undir jökli getur valdið jökulhlaupi frá þessu svæði, og líkleg upptök eru við Skerin.

Hlaupið á tíundu öld kom niður norðurhlíð Eyjafjallajökuls neðan við Skerin og risti farvegi sem enn sjást í aurkeilur vatnsfalla á tveggja kílómetra löngum kafla við Langanes. Líklegt er að hlaupvatn hafi komið niður norðurhlíðina á mun breiðara svæði, á um sex kílómetra kafla frá Akstaðaá austur að Smjörgili. Vatnsmagn var líklega ekki mikið, en fallhæð frá núverandi jökulrönd niður á jafnsléttu er 700-800 metrar á þriggja kílómetra vegalend (loftlína).

Tilvísanir:
  1. ^ Sveinn P. Jakobsson, 1979. Petrology of Recent Basalt of the Eastern Volcanic Zone, Iceland. Acta Naturalia Islandica, 26, 1-103.
  2. ^ Helgi Torfason og Höskuldur B. Jónsson, 2005. Jarðfræði við norðvestanverðan Mýrdalsjökul. Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. (Magnús Tumi Guðmundsson og Ágúst Gunnar Gylfason ritstjórar). Ríkislögreglustjórinn og Háskólaútgáfan, Reykjavík, 45-74.
  3. ^ Sveinn P. Jakobsson, 1979.
  4. ^ Haukur Jóhannesson og fleiri, 1990. Jarðfræðikort af Íslandi, blað 6. Miðsuðurland. 3. Útgáfa. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
  5. ^ Klausturpósturinn, 1822 og 1823.
  6. ^ Guðrún Larsen, 1999. Gosið í Eyjafjallajökli 1821-1823. Rannsóknarskýrsla RH-28-99, 1-13. Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Reykjavík.
  7. ^ Annálar 1400-1800, bls. 28-277. Hannes Þorsteinsson, Jón Jóhannesson, Þórhallur Vilmundarson og Guðrún Ása Grímsdóttir önnuðust útgáfu. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.
  8. ^ Vetter, Daniel [1592-1669]. 1983. Ísland. Ferðasaga frá 17. öld. Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir þýddu. Helgi Þorláksson sá um útgáfuna. Reykjavík, Sögufélag. 150 bls.
  9. ^ Dugmore, óbirt gögn
  10. ^ Birgir V. Óskarsson, 2009. The Skerin ridge on Eyjafjallajökull, south Iceland: Morphology and magma-ice interaction in an ice-confined silicic fissure eruption. Meistaraprófsritgerð vð Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, 111 bls.
  11. ^ Klausturpósturinn, 1822 og 1823.
  12. ^ Guðrún Larsen og fleiri, 1999. Geochemistry of historicalage silicic tephras in Iceland. The Holocene, 9, 463-471.
  13. ^ Klausturpósturinn, 1822, bls. 3.
  14. ^ Klausturpósturinn, 1822, bls. 134 og 201-202.
  15. ^ Safn til sögu Íslands II, 1856-1939. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík og Kaupmannahöfn, bls. 555-556.
  16. ^ Gunnar O. Gröndal og Sverrir Elefsen, 2005. Farvegir Markarfljóts í Landeyjum og rennsli jökulhlaupsins 1822. Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. (Magnús Tumi Guðmundsson og Ágúst Gunnar Gylfason ritstjórar). Ríkislögreglustjórinn og Háskólaútgáfan, Reykjavík, 105-111.
  17. ^ Klausturpósturinn, 1822.
  18. ^ Sveinbjörn Rafnsson, bréflegar upplýsingar 2008.
  19. ^ Vetter, Daniel [1592-1669]. 1983.
  20. ^ Birgir V. Óskarsson og fleiri, 2010. The 10th century Skerin ridge on northwest Eyjafjallajökull, south Iceland – Volcanic architecture and bimodal magma composition. American Geophysical Union, Fall Meeting 2010, abstract V4 1E-2330.

Myndir:


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Eyjafjallajökul í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundar

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Freysteinn Sigmundsson

Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindastofnun Háskólans

Andrew Dugmore

prófessor við Háskólann í Edinborg

Útgáfudagur

20.4.2020

Spyrjandi

Páll Birkir Reynisson

Tilvísun

Guðrún Larsen, Freysteinn Sigmundsson og Andrew Dugmore. „Hvað hafa orðið mörg gos í Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi á sögulegum tíma og nútíma og hvaða ár urðu þessi gos?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2020. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75438.

Guðrún Larsen, Freysteinn Sigmundsson og Andrew Dugmore. (2020, 20. apríl). Hvað hafa orðið mörg gos í Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi á sögulegum tíma og nútíma og hvaða ár urðu þessi gos? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75438

Guðrún Larsen, Freysteinn Sigmundsson og Andrew Dugmore. „Hvað hafa orðið mörg gos í Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi á sögulegum tíma og nútíma og hvaða ár urðu þessi gos?“ Vísindavefurinn. 20. apr. 2020. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75438>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað hafa orðið mörg gos í Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi á sögulegum tíma og nútíma og hvaða ár urðu þessi gos?
Eldstöðvakerfi kennt við Eyjafjallajökul nær yfir jökulinn sjálfan og fjalllendið sem hann situr á. Gos í eldstöðvakerfinu hafa verið fátíð og öll þekkt gos fremur lítil. Erfitt hefur reynst að tímasetja hraunin sem liggja hátt. Þau eru jarðvegsvana, og í mörgum tilvikum hefur jökulhlaup farið yfir þau eða jökull skriðið út á hraun og gíga. Auðveldara er að tímasetja gjóskulögin, en þau eru fá og smá. Um 20 aðgreind hraun frá forsögulegum tíma hafa verið kortlögð austan og vestan við íshettu Eyjafjallajökuls. Öll eru þau úr basaltríku andesíti að undanskildum tveimur basalthraunum og einu súru hrauni. Líklegt er að hluti þessara hrauna sé eldri en frá nútíma.[1]

Á Fimmvörðuhálsi eru móbergshryggir sem mynduðust í gosum undir jökli á síðasta jökulskeiði, og að minnsta kosti sex til átta hraun sem hafa runnið eftir lok síðasta jökulskeiðs í núverandi landslagi.[2] Vegna ellilegs yfirbragðs eru flest hraunanna talin vera frá fyrri hluta nútíma. Samanlagt rúmmál allra hraunanna er um 0,26 rúmkílómetrar,[3] og lengst hafa hraun flætt um sex kílómetra frá upptökum.[4]

Eyjafjallajökull gaus síðast árið 2010.

Fyrir utan eldsumbrotin 2010 (sem lesa má um í nokkrum öðrum svörum hér á vefnum) er aðeins vitað um þrjú gos á sögulegum tíma í eldstöðvakerfinu: Lítið sprengigos í toppgíg jökulsins 1821-1823, ef til vill í tengslum við smágúl sem náði þó ekki til yfirborðs,[5][6] annað minni háttar sprengigos 1612 eða 1613, líklega efst í jöklinum,[7][8] og gos um 920, sennilega við Skerin. Það olli hlaupi niður í Langanes undir norðurhlíðum Eyjafjallajökuls.[9][10] Öll þrjú urðu um svipað leyti og gos í nágrannaeldstöðinni Kötlu.

Eldgosið 1821-1823

Gosinu 1821-1823 er lýst í samtímaheimildum. Gosmökkur sást fyrst upp úr hádegi 20. desember 1821. Sprengigosið virðist alltaf hafa verið fremur lítið og með löngum hléum. Á árinu 1823 virðist eingöngu hafa verið um gufuuppstreymi að ræða. Töluvert gjóskufall varð þó í nærsveitum fyrstu gosdagana og sumarið 1822, en mest féll á heiðarnar ofan byggða. Gjóskan barst aðallega til suðurs og vesturs yfir Eyjafjallasveit og Landeyjar, og gjóskuvottur barst að sögn vestur á Seltjarnarnes.[11] Gjóskulagið er gráleitt og fíngert og óverulegt eins og það finnst í jarðvegi umhverfis Eyjafjallajökul nú, minna en 0,01 rúmkílómetrar.[12]

Í gosinu 1821-1823 urðu nokkur jökulhlaup, sum mun meiri að umfangi en vorið 2010. Í Klausturpóstinum segir um fyrstu gosdagana 1821: „uxu vötn og fljót nokkuð.“[13] Um atburði fyrri hluta árs 1822 segir meðal annars: „Einstök, þó ekki stór skaðvæn, vatnsflóð spýttust við og við úr þessum jökli og féllu vestur í Markarfljót, með nokkru Jökulhruni, uns hann, þann 26ta Júnii spjó á ný …“ „Jökulhlaupi eigna menn og ofvöxt í Holts-á undir Eyjafjöllum, sem flóa skal nú þar yfir og skémma mjög lönd þess Presta-kalls, og gjöra að svo stöddu veru Presta og margra búenda í þeirri Dals Sóknum framvegis mjög svo tvísýna og óbjargvænlega.“[14] Um sumarið var vöxtur í Markarfljóti og Þverá eins og getur í bréfi Steingríms Jónssonar prófasts í Odda. Lýsing á jökulhlaupi undan Gígjökli í þessu gosi var skráð hálfri öld síðar, en þar segir að flotið hafi yfir allar eyrar milli Langaness og Fljótshlíðar og farveg Þverár og alla farvegi Markarfljóts, forna og nýja, hafi fyllt.[15] Mælingar á farvegum Þverár og Markarfljóts benda til að hlaupið gæti hafa verið 12.000-29.000 rúmmetrar á sekúndu, þegar það var í hámarki.[16]

Gos í Eyjafjallajökli 8. júlí 1822. Vatnslitamynd eftir E. Bruhn, varðveitt í Kongunsbókhlöðu, Kaupmannahöfn.

Þótt gosið í Eyjafjallajökli 1821-1823 teljist lítið gos, olli það samt verulegu tjóni, bæði vegna gjóskufalls og jökulhlaupa eða vatnavaxta. Gjóskan spillti bæði vetrar- og sumarbeit, og fé fóðraðist illa svo að lóga þurfti gripum.[17] Liðaveiki og hnútar á beinum í búpeningi hafa líklega stafað af flúoreitrun. Jökulhlaup og vatnavextir ollu einhverjum landskemmdum, auk þess að vera farartálmar. Í ítarlegum samtímalýsingum í bréfum og skýrslum um gosið og áhrif þess, er þess hvergi getið að jarðskjálftar hafi fundist, þótt miklir dynkir fylgdu, og raunar tekið fram að engra hræringa hafi orðið vart.[18]

Eldgosið 1612-1613

Lýsingar á gosi í Eyjafjallajökli 1612 eða 1613 eru ekki ótvíræðar. Gjóskuvottur sem gæti verið úr þessu gosi hefur aðeins fundist á einum stað. Daniel Vetter, tékknesk-pólskur ferðalangur, kom hingað til lands í upphafi sautjándu aldar. Hann skrifaði ferðabók um Íslandsferð sína sem kom út 1637 og hefur verið þýdd á íslensku.[19] Daniel lýsir eldgosi veturinn 1613 á eftirfarandi hátt:

Margt er þar annarra stórra fjalla, þar sem einnig gjörast ýmis sérstök og undarleg fyrirbrigði. Eitt þeirra er sextán mílur frá Skálholti; þar bar svo til veturinn 1613 að á því dundu látlaust reiðarþrumur og hræðileg högg þrjá daga, líkt og skotið væri úr einhverjum óskaplega stórum og mörgum fallstykkjum. Svo logaði allt fjallið, og eldurinn stóð upp af tindinum eins og kyndill, og féll það og rann með feiknalegum dunum og dynkjum ofan í mikið vatn, sem þar var hjá, þrjátíu faðma á dýpt, og brenndi það og þurrkaði upp. Svo fyllti fjallið djúpið af gjalli og brenndu grjóti.

Þessa lýsingu Daniels Vetters á gosi í fjalli 16 mílur frá Skálholti má túlka á ýmsa vegu. Á kortum kenndum við Guðbrand Skálholtsbiskup er Eyjafjallajökull sýndur í um 16 mílna (þýsk míla) fjarlægð frá Skálholti, Mýrdalsjökull í 18-20 mílna fjarlægð og Sólheimajökull mun fjær. Daniel dvaldi meðal annars í Skálholti í boði Odds biskups og gæti hafa tölur um fjarlægðir frá heimamönnum. Fjallið „rennur“ ofan í „mikið vatn,“ en ekki í sjó fram. Þetta tvennt styður fremur að lýsingin eigi við gos í Eyjafjallajökli en Kötlu, en rökin eru þó veik. Þetta er tíundað hér vegna þess að ekki er hægt að líta fram hjá þeim möguleika að þar sé verið að lýsa hlaupi sem kom niður hlíðar Eyjafjallajökuls og bar með sér töluvert af föstu efni. Vera má að „vatnið“ eigi við lón framan við Gígjökul eða Steinholtsjökul. Einnig er mögulegt að átt sé við vötn sem voru einhvers staðar í nágrenni Eyjafjallajökuls, en hurfu, „fjallið fyllti djúpið af gjalli og brenndu grjóti.“ Ólíklegt er, en ekki ómögulegt, að átt sé við Holtsós, það vatn er enn til.

Lýsingar í heimildum á gosum og hlaupum í Eyjafjallajökli og Kötlu á árunum 1612-1613 eru fremur ruglingslegar og blandnar. Öruggt má telja að hlaup hafi fylgt Kötlugosinu 1612 sem rann meðal annars ofan í Álftaver, en ákveðin atriði í frásögn Daniels Vetter má túlka svo að hlaup, hugsanlega frá Eyjafjallajökli, hafi runnið út í stöðuvatn og fyllt það. Varlegast er að gera ráð fyrir að gosi í Eyjafjallajökli á árunum 1612-1613 hafi fylgt hlaup eða vatnsflóð, þótt ekkert verði sagt með vissu um stærð eða hlaupleiðir.

Eldgos og hlaup um 920

Engar heimildir eru um eldgos við Kerin í norðvestanverðum Eyjafjallajökli. Þau eru hryggur upp í norðvestanverðan jökulinn, um fjögurra kílómetra langur og að hluta úr gjall- og hraunkarga.[20] Ummerki um hlaup sem flæddi niður norðurhlíðarnar hafa verið tímasett með gjóskutímatali og eru frá því um 920. Aðeins eldgos í eða að hluta undir jökli getur valdið jökulhlaupi frá þessu svæði, og líkleg upptök eru við Skerin.

Hlaupið á tíundu öld kom niður norðurhlíð Eyjafjallajökuls neðan við Skerin og risti farvegi sem enn sjást í aurkeilur vatnsfalla á tveggja kílómetra löngum kafla við Langanes. Líklegt er að hlaupvatn hafi komið niður norðurhlíðina á mun breiðara svæði, á um sex kílómetra kafla frá Akstaðaá austur að Smjörgili. Vatnsmagn var líklega ekki mikið, en fallhæð frá núverandi jökulrönd niður á jafnsléttu er 700-800 metrar á þriggja kílómetra vegalend (loftlína).

Tilvísanir:
  1. ^ Sveinn P. Jakobsson, 1979. Petrology of Recent Basalt of the Eastern Volcanic Zone, Iceland. Acta Naturalia Islandica, 26, 1-103.
  2. ^ Helgi Torfason og Höskuldur B. Jónsson, 2005. Jarðfræði við norðvestanverðan Mýrdalsjökul. Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. (Magnús Tumi Guðmundsson og Ágúst Gunnar Gylfason ritstjórar). Ríkislögreglustjórinn og Háskólaútgáfan, Reykjavík, 45-74.
  3. ^ Sveinn P. Jakobsson, 1979.
  4. ^ Haukur Jóhannesson og fleiri, 1990. Jarðfræðikort af Íslandi, blað 6. Miðsuðurland. 3. Útgáfa. Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
  5. ^ Klausturpósturinn, 1822 og 1823.
  6. ^ Guðrún Larsen, 1999. Gosið í Eyjafjallajökli 1821-1823. Rannsóknarskýrsla RH-28-99, 1-13. Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Reykjavík.
  7. ^ Annálar 1400-1800, bls. 28-277. Hannes Þorsteinsson, Jón Jóhannesson, Þórhallur Vilmundarson og Guðrún Ása Grímsdóttir önnuðust útgáfu. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.
  8. ^ Vetter, Daniel [1592-1669]. 1983. Ísland. Ferðasaga frá 17. öld. Hallfreður Örn Eiríksson og Olga María Franzdóttir þýddu. Helgi Þorláksson sá um útgáfuna. Reykjavík, Sögufélag. 150 bls.
  9. ^ Dugmore, óbirt gögn
  10. ^ Birgir V. Óskarsson, 2009. The Skerin ridge on Eyjafjallajökull, south Iceland: Morphology and magma-ice interaction in an ice-confined silicic fissure eruption. Meistaraprófsritgerð vð Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, 111 bls.
  11. ^ Klausturpósturinn, 1822 og 1823.
  12. ^ Guðrún Larsen og fleiri, 1999. Geochemistry of historicalage silicic tephras in Iceland. The Holocene, 9, 463-471.
  13. ^ Klausturpósturinn, 1822, bls. 3.
  14. ^ Klausturpósturinn, 1822, bls. 134 og 201-202.
  15. ^ Safn til sögu Íslands II, 1856-1939. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík og Kaupmannahöfn, bls. 555-556.
  16. ^ Gunnar O. Gröndal og Sverrir Elefsen, 2005. Farvegir Markarfljóts í Landeyjum og rennsli jökulhlaupsins 1822. Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. (Magnús Tumi Guðmundsson og Ágúst Gunnar Gylfason ritstjórar). Ríkislögreglustjórinn og Háskólaútgáfan, Reykjavík, 105-111.
  17. ^ Klausturpósturinn, 1822.
  18. ^ Sveinbjörn Rafnsson, bréflegar upplýsingar 2008.
  19. ^ Vetter, Daniel [1592-1669]. 1983.
  20. ^ Birgir V. Óskarsson og fleiri, 2010. The 10th century Skerin ridge on northwest Eyjafjallajökull, south Iceland – Volcanic architecture and bimodal magma composition. American Geophysical Union, Fall Meeting 2010, abstract V4 1E-2330.

Myndir:


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Eyjafjallajökul í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi....