Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:52 • sest 19:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:16 • Sest 00:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:13 • Síðdegis: 16:37 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 23:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers konar gosefni komu úr gosunum 1362 og 1727 í Öræfajökli?

Ármann Höskuldsson og Páll Imsland

Tore Prestvik[1] hefur kannað jarðlagaskipan í Öræfajökli og bergfræði gosefnanna. Samsetning þeirra er frábrugðin þeim efnum sem verða til í fráreksbeltunum. Bergtegundir sem finnast í Öræfajökli, spanna allt samsetningarsviðið frá basískum og frumstæðum til súrra og háþróaðra. Þetta er í fullu samræmi við breytileikann í gosháttum fjallsins. Þar má finna allt frá smákurluðu fínu móbergstúffi og þunnbeltuðum hraunum úr basalti til blásins vikurs og ríólítgúla.

Margar aldir líða á milli eldgosa í Öræfajökli. Sigurður Þórarinsson[2] og Hjalti J. Guðmundsson[3] röktu fyrstir gossögu jökulsins. Hún var rakin eftir rituðum heimildum og gjóskulagafræðum. Samkvæmt henni hafa einungis orðið tvö gos í fjallinu á sögulegum tíma, árin 1362 og 1727. Eldgosið 1362 er stærsta þeytigos Íslands á sögulegum tíma. Raunar hefur ekki orðið svona stórt þeytigos í Evrópu síðan Vesúvíus á Ítalíu gaus árið 79. Að minnsta kosti tvö önnur gos hafa orðið á tiltölulega nýliðnum tíma, og sjást menjar þeirra í smáhraunum og gjósku. Annar staðurinn er vestan við Kvíárjökul, sunnan undir fjallinu. Þar er auðfundið ungt smáhraun sem jökull hefur ekki farið yfir. Hinn er hátt í Vatnafjöllum austan við Kvíárjökul. Þar eru einnig tiltölulega ungar gosmenjar, gjóska og hraun.[4] Hjalti Guðmundsson[5] rakti jöklabreytingar í og við Öræfajökul á nútíma og gerði í því sambandi gjóskulagasnið í nágrenni jökulsins. Hann taldi að í jarðvegi fyndust allmörg forsöguleg gjóskulög sem rekja mætti til eldgosa í Öræfajökli. Flest þeirra eru af ríólít-gerð og smá að rúmmáli.

Áætluð dreifing ösku í gosinu í Öræfajökli 1362.

Gosið 1362 var eitt mesta gos Íslandssögunnar og líklega hið afdrifaríkasta sakir eyðileggingar. Gosið kom upp hátt í hlíðum fjallsins, líklega að verulegu leyti í öskju eða stórgíg í tindi fjallsins eða börmum hans. Þetta var þeytigos og gosefnin súr. Þau bárust upp af hlíðum fjallsins í hálfhring frá suðaustri til norðvesturs. Hluti gosefnanna steyptist fram sem gjóskuhlaup er setti af sér mikinn vikur á láglendi og allt í sjó fram.[6] Mikið af gjósku barst allt að 35 kílómetra í loft upp og dreifðist yfir nágrennið sem gjóskufall og olli miklum spjöllum í sveitunum austan Öræfa. Ætla má að um 75% landsins hafi orðið fyrir einhverju öskufalli í þessu eldgosi. Ekki er vitað til þess að neitt af gosefnunum hafi hrúgast upp sem hraun eða gúll.

Afleiðingarnar voru gífurlegar. Byggð undir rótum fjallsins og á láglendi fram af fjallinu í austri, suðri og vestri, Litla-Hérað, lagðist af um fjölda ára og annálar leggja áherslu á að eyðing hafi verið algjör. Í Oddverjaannál segir svo: „Eldsuppkoma í Litla-Héraði og eyddi allt héraðið. Höfðu þar áður verið 70 bæir. Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“[7] Þegar sveitin var aftur numin eftir óþekktan tíma, nokkur ár eða áratugi,[8] hafði svæðið fengið annað nafn, Öræfi. Giskað hefur verið á að í þessu gosi hafi á milli 250 og 400 manns farist.[9] Þar með er það að öllum líkindum mannskæðasta gos Íslandssögunnar.

Gjóska úr Öræfajökulsgosinu 1362 á bökkum Gljúfursár. Hér má sjá að gjóskuflóð og jökulhlaup koma fram strax í byrjun goss.

Tveir bæir sem fóru undir vikur í þessu gosi hafa verið grafnir upp. Gröf, rétt vestan við Hof, var grafin upp fyrir hálfri öld[10] og Bær, vestan Salthöfða, fyrir fáeinum árum.[11] Niðurstöður rannsókna samfara uppgreftri að Bæ sýna að snemma í eldgosinu féllu mikil gjóskuflóð niður suðurhlíðar Öræfajökuls. Um vestanverða Öræfasveit má finna gusthlaup sem mynduðust samfara gjóskuflóðunum.[12]

Gosið 1727 var samkvæmt samtímaheimildum[13] miklu minna gos og olli ekki eins miklum spjöllum, en þó nokkrum með hlaupum. Þau komu einkum niður beggja vegna gamla prestsetursins að Sandfelli og allt suður undir Hof. Landist spilltist töluvert, og þarna eru enn berir sandar og stórkostleg ógróin jökulker eftir framhlaupin. Töluvert af búsmala mun hafa lent í jökulhlaupunum og þrjár manneskjur fórust í þeim. Líklega má enn finna gíga þessa goss efst í Sandfellsheiði, hátt á vesturhlíðum fjallsins, og gosefni við jökulröndina en sködduð af ágangi jökuls. Samtímalýsingin sem hér er vitnað til, getur um sjö elda sem bendir til þess að alllöng gossprunga hafi verið opin upp af Sandfelli og á henni nokkrir strókar.

Bergfræði Öræfajökuls myndar samfellda röð frá basísku um ísúrt og upp í súrt berg og er örlítið alkalískari en gerist og gengur með bergraðir á gliðnunargosbeltum á flekaskilum,[14] og er það sammerkt berginu úr Snæfelli.

Tilvísanir:
  1. ^ Prestvik, T. 1976. Öræfajökull, Islands störste vulkan. Naturen, 1, 41-47. Prestvik, T. 1979. Geology of the Öræfi district, southeastern Iceland. Skýrsla 7901. Norræna eldfjallastöðin, Reykjavík. Prestvik, T. 1980. Petrology of hybrid intermediate and silicic rocks from Öræfajökull, southeast Iceland. Geologiska Föreningen í Stockholm Förhandlingar, 101, 299-307. Prestvik, T. 1982. Petrography, chemical characteristics and nomenclature of Öræfajökull rocks. Jökull, 32, 69-76.
  2. ^ Sigurður Þórarinsson, 1957. Hérað milli sanda og eyðing þess. Andvari, 82, 35-47. Sigurður Þórarinsson. 1958. The Öræfajökull eruption of 1362. Acta Naturalia Islandica, II, 2, 1-99.
  3. ^ Hjalti J. Guðmundsson, 1998. Holocene glacier fluctuations and tephrochronology of the Öræfi district, Iceland. Doktorsritgerð, University of Edinburg.
  4. ^ Sigurður Björnsson, 1993. Hvað gerðist við Kvíárjökul í lok ísaldar? Náttúrufræðingurinn, 62, 21-33.
  5. ^ Hjalti J. Guðmundsson, 1998. Holocene glacier fluctuations and tephrochronology of the Öræfi district, Iceland. Doktorsritgerð, University of Edinburg.
  6. ^ Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson, 2006. Eldgos í Öræfajökli 1362 og myndun gusthlaupa í upphafi eldgoss. Fyrirlestur á vorráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands, 19. apríl 2006. Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson, 2007. The eruption of Öræfjajökull 1362 and destruction of the district Herad, SE-Iceland. Abstracts Volume, Cities on Volcanoes 5. Shimabara, Japan, 178. Páll Valdimar Kolka Jónsson og fleiri, 2007 [Páll Valdimar Kolka Jónsson og Ármann Höskuldsson]. Eldgosið í Öræfajökli 1362, framgangur og afleiðingar. Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 2007, ágrip erinda og veggspjalda, 16.
  7. ^ Guðrún Ása Grímsdóttir og Eiríkur Þormóðsson [bjuggu til prentunar], 2003. Oddaannálar og Oddverjaannáll. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Reykjavík.
  8. ^ Sigurður Björnsson, 1982. „Lifði engin kvik kind eftir.“ Eldur er í norðri. Afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum 8. janúar 1982 (Helga Þórarinsdóttir, Ólafur H. Óskarsson, Sigurður Steinþórsson og Þorleifur Enarsson ritstjórar). Sögufélag, Reykjavík, 353-359. Sigurður Þórarinsson, 1958. The Öræfajökull eruption of 1362. Acta Naturalia Islandica, II, 2, 1-99.
  9. ^ Páll Imsland, 1987. Öræfajökull, brot úr jarðfræði og jarðsögu eldfjallsins. Ferð í Öræfi 9.-12. júlí 1987. Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík, 14-15. Páll Imsland, 2005. Öræfajökull. Glettingur, 15 (2-3), 39-40.
  10. ^ Gísli Gestsson, 1959. Gröf í Öræfum. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1959, 5-87.
  11. ^ Bjarni Einarsson, 2005. Inn í eilífðina á augnabliki - Bær í Öræfum. Glettingur, 39-40, 25-34.
  12. ^ Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson, 2006. Eldgos í Öræfajökli 1362 og myndun gusthlaupa í upphafi eldgoss. Fyrirlestur á vorrráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands, 19. apríl 2006. Páll Valdimar Kolka Jónsson, 2007. Eyðing Bæjar í Öræfasveit í Öræfajökulsgosinu 1362. BS-ritgerð við Háskóla Íslands.
  13. ^ Einar Hálfdánarson, 1918. Frásögn. Blanda I, 1. Sögufélag, Reykjavík, 54-59.
  14. ^ Prestvik, T. 1980. Petrology of hybrid intermediate and silicic rocks from Öræfajökull, southeast Iceland. Geologiska Föreningen í Stockholm Förhandlingar, 101, 299-307. Prestvik, T. 1982. Petrography, chemical characteristics and nomenclature of Öræfajökull rocks. Jökull, 32, 69-76.

Myndir:
  • Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík 2013, bls. 271 og 272..


Þetta svar er fengið úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvernig gosefni komu úr Öræfajökli í gosunum árin 1362 og 1727? Voru þau basísk, ísúr eða súr?

Höfundar

Ármann Höskuldsson

eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans

Páll Imsland

jarðfræðingur

Útgáfudagur

20.11.2017

Síðast uppfært

21.11.2017

Spyrjandi

Finnur Torfason

Tilvísun

Ármann Höskuldsson og Páll Imsland. „Hvers konar gosefni komu úr gosunum 1362 og 1727 í Öræfajökli?“ Vísindavefurinn, 20. nóvember 2017, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=14362.

Ármann Höskuldsson og Páll Imsland. (2017, 20. nóvember). Hvers konar gosefni komu úr gosunum 1362 og 1727 í Öræfajökli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=14362

Ármann Höskuldsson og Páll Imsland. „Hvers konar gosefni komu úr gosunum 1362 og 1727 í Öræfajökli?“ Vísindavefurinn. 20. nóv. 2017. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=14362>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers konar gosefni komu úr gosunum 1362 og 1727 í Öræfajökli?
Tore Prestvik[1] hefur kannað jarðlagaskipan í Öræfajökli og bergfræði gosefnanna. Samsetning þeirra er frábrugðin þeim efnum sem verða til í fráreksbeltunum. Bergtegundir sem finnast í Öræfajökli, spanna allt samsetningarsviðið frá basískum og frumstæðum til súrra og háþróaðra. Þetta er í fullu samræmi við breytileikann í gosháttum fjallsins. Þar má finna allt frá smákurluðu fínu móbergstúffi og þunnbeltuðum hraunum úr basalti til blásins vikurs og ríólítgúla.

Margar aldir líða á milli eldgosa í Öræfajökli. Sigurður Þórarinsson[2] og Hjalti J. Guðmundsson[3] röktu fyrstir gossögu jökulsins. Hún var rakin eftir rituðum heimildum og gjóskulagafræðum. Samkvæmt henni hafa einungis orðið tvö gos í fjallinu á sögulegum tíma, árin 1362 og 1727. Eldgosið 1362 er stærsta þeytigos Íslands á sögulegum tíma. Raunar hefur ekki orðið svona stórt þeytigos í Evrópu síðan Vesúvíus á Ítalíu gaus árið 79. Að minnsta kosti tvö önnur gos hafa orðið á tiltölulega nýliðnum tíma, og sjást menjar þeirra í smáhraunum og gjósku. Annar staðurinn er vestan við Kvíárjökul, sunnan undir fjallinu. Þar er auðfundið ungt smáhraun sem jökull hefur ekki farið yfir. Hinn er hátt í Vatnafjöllum austan við Kvíárjökul. Þar eru einnig tiltölulega ungar gosmenjar, gjóska og hraun.[4] Hjalti Guðmundsson[5] rakti jöklabreytingar í og við Öræfajökul á nútíma og gerði í því sambandi gjóskulagasnið í nágrenni jökulsins. Hann taldi að í jarðvegi fyndust allmörg forsöguleg gjóskulög sem rekja mætti til eldgosa í Öræfajökli. Flest þeirra eru af ríólít-gerð og smá að rúmmáli.

Áætluð dreifing ösku í gosinu í Öræfajökli 1362.

Gosið 1362 var eitt mesta gos Íslandssögunnar og líklega hið afdrifaríkasta sakir eyðileggingar. Gosið kom upp hátt í hlíðum fjallsins, líklega að verulegu leyti í öskju eða stórgíg í tindi fjallsins eða börmum hans. Þetta var þeytigos og gosefnin súr. Þau bárust upp af hlíðum fjallsins í hálfhring frá suðaustri til norðvesturs. Hluti gosefnanna steyptist fram sem gjóskuhlaup er setti af sér mikinn vikur á láglendi og allt í sjó fram.[6] Mikið af gjósku barst allt að 35 kílómetra í loft upp og dreifðist yfir nágrennið sem gjóskufall og olli miklum spjöllum í sveitunum austan Öræfa. Ætla má að um 75% landsins hafi orðið fyrir einhverju öskufalli í þessu eldgosi. Ekki er vitað til þess að neitt af gosefnunum hafi hrúgast upp sem hraun eða gúll.

Afleiðingarnar voru gífurlegar. Byggð undir rótum fjallsins og á láglendi fram af fjallinu í austri, suðri og vestri, Litla-Hérað, lagðist af um fjölda ára og annálar leggja áherslu á að eyðing hafi verið algjör. Í Oddverjaannál segir svo: „Eldsuppkoma í Litla-Héraði og eyddi allt héraðið. Höfðu þar áður verið 70 bæir. Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“[7] Þegar sveitin var aftur numin eftir óþekktan tíma, nokkur ár eða áratugi,[8] hafði svæðið fengið annað nafn, Öræfi. Giskað hefur verið á að í þessu gosi hafi á milli 250 og 400 manns farist.[9] Þar með er það að öllum líkindum mannskæðasta gos Íslandssögunnar.

Gjóska úr Öræfajökulsgosinu 1362 á bökkum Gljúfursár. Hér má sjá að gjóskuflóð og jökulhlaup koma fram strax í byrjun goss.

Tveir bæir sem fóru undir vikur í þessu gosi hafa verið grafnir upp. Gröf, rétt vestan við Hof, var grafin upp fyrir hálfri öld[10] og Bær, vestan Salthöfða, fyrir fáeinum árum.[11] Niðurstöður rannsókna samfara uppgreftri að Bæ sýna að snemma í eldgosinu féllu mikil gjóskuflóð niður suðurhlíðar Öræfajökuls. Um vestanverða Öræfasveit má finna gusthlaup sem mynduðust samfara gjóskuflóðunum.[12]

Gosið 1727 var samkvæmt samtímaheimildum[13] miklu minna gos og olli ekki eins miklum spjöllum, en þó nokkrum með hlaupum. Þau komu einkum niður beggja vegna gamla prestsetursins að Sandfelli og allt suður undir Hof. Landist spilltist töluvert, og þarna eru enn berir sandar og stórkostleg ógróin jökulker eftir framhlaupin. Töluvert af búsmala mun hafa lent í jökulhlaupunum og þrjár manneskjur fórust í þeim. Líklega má enn finna gíga þessa goss efst í Sandfellsheiði, hátt á vesturhlíðum fjallsins, og gosefni við jökulröndina en sködduð af ágangi jökuls. Samtímalýsingin sem hér er vitnað til, getur um sjö elda sem bendir til þess að alllöng gossprunga hafi verið opin upp af Sandfelli og á henni nokkrir strókar.

Bergfræði Öræfajökuls myndar samfellda röð frá basísku um ísúrt og upp í súrt berg og er örlítið alkalískari en gerist og gengur með bergraðir á gliðnunargosbeltum á flekaskilum,[14] og er það sammerkt berginu úr Snæfelli.

Tilvísanir:
  1. ^ Prestvik, T. 1976. Öræfajökull, Islands störste vulkan. Naturen, 1, 41-47. Prestvik, T. 1979. Geology of the Öræfi district, southeastern Iceland. Skýrsla 7901. Norræna eldfjallastöðin, Reykjavík. Prestvik, T. 1980. Petrology of hybrid intermediate and silicic rocks from Öræfajökull, southeast Iceland. Geologiska Föreningen í Stockholm Förhandlingar, 101, 299-307. Prestvik, T. 1982. Petrography, chemical characteristics and nomenclature of Öræfajökull rocks. Jökull, 32, 69-76.
  2. ^ Sigurður Þórarinsson, 1957. Hérað milli sanda og eyðing þess. Andvari, 82, 35-47. Sigurður Þórarinsson. 1958. The Öræfajökull eruption of 1362. Acta Naturalia Islandica, II, 2, 1-99.
  3. ^ Hjalti J. Guðmundsson, 1998. Holocene glacier fluctuations and tephrochronology of the Öræfi district, Iceland. Doktorsritgerð, University of Edinburg.
  4. ^ Sigurður Björnsson, 1993. Hvað gerðist við Kvíárjökul í lok ísaldar? Náttúrufræðingurinn, 62, 21-33.
  5. ^ Hjalti J. Guðmundsson, 1998. Holocene glacier fluctuations and tephrochronology of the Öræfi district, Iceland. Doktorsritgerð, University of Edinburg.
  6. ^ Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson, 2006. Eldgos í Öræfajökli 1362 og myndun gusthlaupa í upphafi eldgoss. Fyrirlestur á vorráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands, 19. apríl 2006. Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson, 2007. The eruption of Öræfjajökull 1362 and destruction of the district Herad, SE-Iceland. Abstracts Volume, Cities on Volcanoes 5. Shimabara, Japan, 178. Páll Valdimar Kolka Jónsson og fleiri, 2007 [Páll Valdimar Kolka Jónsson og Ármann Höskuldsson]. Eldgosið í Öræfajökli 1362, framgangur og afleiðingar. Vorráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 2007, ágrip erinda og veggspjalda, 16.
  7. ^ Guðrún Ása Grímsdóttir og Eiríkur Þormóðsson [bjuggu til prentunar], 2003. Oddaannálar og Oddverjaannáll. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Reykjavík.
  8. ^ Sigurður Björnsson, 1982. „Lifði engin kvik kind eftir.“ Eldur er í norðri. Afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum 8. janúar 1982 (Helga Þórarinsdóttir, Ólafur H. Óskarsson, Sigurður Steinþórsson og Þorleifur Enarsson ritstjórar). Sögufélag, Reykjavík, 353-359. Sigurður Þórarinsson, 1958. The Öræfajökull eruption of 1362. Acta Naturalia Islandica, II, 2, 1-99.
  9. ^ Páll Imsland, 1987. Öræfajökull, brot úr jarðfræði og jarðsögu eldfjallsins. Ferð í Öræfi 9.-12. júlí 1987. Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík, 14-15. Páll Imsland, 2005. Öræfajökull. Glettingur, 15 (2-3), 39-40.
  10. ^ Gísli Gestsson, 1959. Gröf í Öræfum. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1959, 5-87.
  11. ^ Bjarni Einarsson, 2005. Inn í eilífðina á augnabliki - Bær í Öræfum. Glettingur, 39-40, 25-34.
  12. ^ Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson, 2006. Eldgos í Öræfajökli 1362 og myndun gusthlaupa í upphafi eldgoss. Fyrirlestur á vorrráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands, 19. apríl 2006. Páll Valdimar Kolka Jónsson, 2007. Eyðing Bæjar í Öræfasveit í Öræfajökulsgosinu 1362. BS-ritgerð við Háskóla Íslands.
  13. ^ Einar Hálfdánarson, 1918. Frásögn. Blanda I, 1. Sögufélag, Reykjavík, 54-59.
  14. ^ Prestvik, T. 1980. Petrology of hybrid intermediate and silicic rocks from Öræfajökull, southeast Iceland. Geologiska Föreningen í Stockholm Förhandlingar, 101, 299-307. Prestvik, T. 1982. Petrography, chemical characteristics and nomenclature of Öræfajökull rocks. Jökull, 32, 69-76.

Myndir:
  • Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík 2013, bls. 271 og 272..


Þetta svar er fengið úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvernig gosefni komu úr Öræfajökli í gosunum árin 1362 og 1727? Voru þau basísk, ísúr eða súr?

...