Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér eitthvað um útræn öfl?

Unnar Árnason

Kennslubók Þorleifs Einarssonar (1931-1999), Jarðfræði er gagnleg fyrir þá sem vilja fræðast um jarðvísindi á íslensku. Í inngangi að 5. útgáfu bókarinnar frá árinu 1985 segir Þorleifur eftirfarandi:
Vettvangur jarðfræðinnar er jarðskorpan, en viðfangsefnin eru tvíþætt og skiptist jarðfræðin því í tvær megingreinar. Annar meginþátturinn er almenn jarðfræði sem einkum fjallar um myndun, gerð og mótun jarðskorpunnar af völdum náttúruaflanna, annars vegar innrænna afla, svo sem jarðelds og jarðskjálfta sem eiga sér upptök í iðrum jarðar, og hins vegar útrænna afla, einkum frosts, fallvatna, jökla, vinds og öldugangs, en aflvaki þeirra er sólarorkan. (bls. 7)

Munurinn á innrænum og útrænum öflum er því í stuttu máli sá að þau innrænu „skapa“ hinum útrænu viðfangsefni sitt. Án innrænna afla „væri yfirborð jarðar fyrir löngu orðið marflatt“ skrifar Þorleifur (bls. 94) og á þá við að þyngdaraflið leitast við að viðhalda sléttri kúlulögun jarðar.



Innræn öfl

Innræn öfl eru fyrst og fremst sprottin af hreyfingum í iðrum jarðar sem færa í sífellu til hafsbotninn og meginlöndin hvíla á (sjá svar Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?). Þar eru að verki kraftar af völdum iðustreymis í jarðmöttlinum.

Aðalbirtingarmyndir innrænna afla eru eldgos og jarðskjálftar, og nálgast má mörg svör um þau fyrirbæri á Vísindavefnum (með því að setja orðin inn í leitarvélina eða smella á efnisorðin hér til hliðar).

Útræn öfl

Útræn öfl eru gjarnan sett undir einn hatt með hugtakinu landmótun sem er síðan skipt upp í veðrun og rof. Veðrun er molnun bergs á staðnum, meðan rof flytur til efnið sem við hana myndast.

Veðrun má flokka á eftirfarandi hátt:
  • Efnaveðrun: Berg grotnar niður fyrir áhrif efna sem eru uppleyst í regn- eða grunnvatni. – Sýrur ýmiskonar, ammoníak og klórsambönd eru dæmi um slík efni.
  • Veðrun af völdum lífvera: Plöntur og dýr bora sig inn í berg eða skríða inn um rifur í því og losa það. Jurtaætur losa einnig um jarðveg. – Ánamaðkar eru sígilt dæmi um jarðvegslosara.
  • Hitabrigðaveðrun: Þótt berg leiði yfirleitt illa hita, getur hitamunur þanið það út eða dregið saman og ysta skorpan fallið af. – Eyðimerkursandur er að miklu leyti tilkominn vegna slíkrar veðrunar
  • Frostveðrun: Frjósi vatn í holrými, þenst það út um 9% og þrýstir af miklum krafti frá sér og getur þannig mulið sprungið eða holótt berg. – Sá hluti þurrlendisjarðvegs hér á landi sem ekki er myndaður úr eldfjallaösku, hefur orðið til við frostveðrun.
  • Frostverkanir: Jarðvegur frýs á vetrum og myndar klakahellu, við þensluna lyftast litlir steinar upp. Við síendurtekinn mun frosts og þíðu þrýstir vatnið einnig til hliðanna og bungar landslagið. – Þúfur og melar má nefna sem dæmi auk þess sem jarðskrið, frostsprungur og freðmýrar eru afleiðingar sömu verkunar.

Rof má svo flokka á þennan máta:
  • Grunnvatnsrof: Lega grunnvatns er mjög háð bergtegundum en leitar jafnan undan bratta. Við vissar aðstæður, vegna jarðlagahalla, basaltganga eða bergsprungna, sprettur það fram sem lindir. – Gvendarbrunnar eru dæmi um slíka uppsprettulind.
  • Árrof: Rof af völdum rennandi vatns er áhrifamest útrænu aflanna, skiptir þá mestu hreinleiki vatnsins og straumhraði. Hreint vatn, í lindarám, brýtur lítið á föstu bergi nema í fossum og kröppum bugðum áa. Jökulár og dragár eru duglegri við að bera fram veðrað efni og grafa sig niður í berg. – Gil og gljúfur eru dæmi um rof vegna ungra vatnsfalla en V-laga dalir eru afleiðingar eldra rennslis. Áreyrar, aurar og óseyrar myndast vegna framburðar veðraðs efnis. Skessukatlar myndast í ám þar sem hringiður hafa gripið með sér grjót.
  • Jökulrof: Jöklum er skipt í tvo flokka, hjarnjökla sem einkenna heimskautalönd, og skriðjökla. Stóru íslensku jöklarnir eru hjarnjöklar en af þeim ganga miklir skriðjöklar. Jöklar skríða undan eigin þunga og flytja með sér bergmylsnu sem frosinn er við botn og jaðra þeirra. Mylsnan virkar líkt og graftól á bergið sem á vegi jökulsins verður og eykur rofið sem jökulskriðið veldur. Jöklar valda víðfeðmara rofi en ár en aðlaga sig frekar landslaginu. – Jökulrákir, hvalbök, grettistök (stórir steinar fluttir um langan veg), jökulurð og -ruðningar eru dæmi um afleiðingar jökulrofs.
  • Sjávarrof: Hreyfingar sjávar skiptast einkum í strauma og bylgjur. Hafstraumar eru það hægfara að þeir hafa sjaldan áhrif á fast berg og sama má segja um sjávarfallastrauma nema í þröngum sundum og á landgrunninu. Bylgjuhreyfingar, öldur og brim, eru mun áhrifameiri. Brim vinnur á föstu bergi fyrst með því að þrýsta saman lofti sem leynist í rifum og sprungum við ágang, og draga síðan loftið út við útsogið. Við það verður til undirþrýstingur í berginu sem mylur það smám saman. Sama má að nokkru leyti segja um rof í stöðuvötnum, nema hvað við þau er rofið mun minna í sniðum, að minnsta kosti hér á landi. – Strendur Íslands eru til vitnis um áhrif sjávarrofs, brimstallar og brimklif (til dæmis Látrabjarg og Hornbjarg) eru víða á vestur-, norður- og austurströnd landsins. Sléttar strendur Suðurlands má skýra útfrá veðurfræðinni – í lægðum snýst vindur þar til útsuðurs sem þrýstir sjónum lengra upp á land. Malarkambar og -rif finnast einnig kringum landið og lón sem myndast hafa þegar þau hafa lokað af firði eða víkur, stundum með aðstoð árframburðar eða jökulburðar. Surtsey er dæmi um hvernig hafið mótar landið og vísindamenn hafa getað fylgst með því frá upphafi.
  • Vindrof: Flestir Íslendingar eru meðvitaðir um áhrif uppblásturs á jarðveg sem tilkominn er vegna þess að skógur hefur horfið af stórum hluta landsins. Uppblástur hefst gjarnan við bakka farvega sem myndast hafa við úrfelli eða snjóleysingar. Vindur getur einnig sorfið berg eða gróður þegar hann ber með bergmylsnu.
  • Skriðuhlaup: Aurskriður, grjóthrun, bergskriður og auðvitað snjóflóð eru velþekkt hér á landi. Í skriðuhlaupum má segja að áhrif þyngdaraflsins á rof séu augljósust þótt aðrir þættir þurfi að bætast við sem skapað hafa halla og þverhnípi. – Vatnsdalshólar eru dæmi um skriðuhlaup, nánar tiltekið bergskriðu.
Heimild:
  • Þorleifur Einarsson, Jarðfræði, 5. útg., Mál og menning, Reykjavík 1985.

Höfundur

Unnar Árnason

bókmenntafræðingur

Útgáfudagur

22.10.2003

Síðast uppfært

6.1.2023

Spyrjandi

Sigurlaug Hafliðadóttir, f. 1988
Sindri Snær Einarsson, f. 1988

Tilvísun

Unnar Árnason. „Getið þið sagt mér eitthvað um útræn öfl?“ Vísindavefurinn, 22. október 2003, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3815.

Unnar Árnason. (2003, 22. október). Getið þið sagt mér eitthvað um útræn öfl? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3815

Unnar Árnason. „Getið þið sagt mér eitthvað um útræn öfl?“ Vísindavefurinn. 22. okt. 2003. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3815>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér eitthvað um útræn öfl?
Kennslubók Þorleifs Einarssonar (1931-1999), Jarðfræði er gagnleg fyrir þá sem vilja fræðast um jarðvísindi á íslensku. Í inngangi að 5. útgáfu bókarinnar frá árinu 1985 segir Þorleifur eftirfarandi:

Vettvangur jarðfræðinnar er jarðskorpan, en viðfangsefnin eru tvíþætt og skiptist jarðfræðin því í tvær megingreinar. Annar meginþátturinn er almenn jarðfræði sem einkum fjallar um myndun, gerð og mótun jarðskorpunnar af völdum náttúruaflanna, annars vegar innrænna afla, svo sem jarðelds og jarðskjálfta sem eiga sér upptök í iðrum jarðar, og hins vegar útrænna afla, einkum frosts, fallvatna, jökla, vinds og öldugangs, en aflvaki þeirra er sólarorkan. (bls. 7)

Munurinn á innrænum og útrænum öflum er því í stuttu máli sá að þau innrænu „skapa“ hinum útrænu viðfangsefni sitt. Án innrænna afla „væri yfirborð jarðar fyrir löngu orðið marflatt“ skrifar Þorleifur (bls. 94) og á þá við að þyngdaraflið leitast við að viðhalda sléttri kúlulögun jarðar.



Innræn öfl

Innræn öfl eru fyrst og fremst sprottin af hreyfingum í iðrum jarðar sem færa í sífellu til hafsbotninn og meginlöndin hvíla á (sjá svar Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað er átt við með landrekskenningunni og hver eru rökin fyrir henni?). Þar eru að verki kraftar af völdum iðustreymis í jarðmöttlinum.

Aðalbirtingarmyndir innrænna afla eru eldgos og jarðskjálftar, og nálgast má mörg svör um þau fyrirbæri á Vísindavefnum (með því að setja orðin inn í leitarvélina eða smella á efnisorðin hér til hliðar).

Útræn öfl

Útræn öfl eru gjarnan sett undir einn hatt með hugtakinu landmótun sem er síðan skipt upp í veðrun og rof. Veðrun er molnun bergs á staðnum, meðan rof flytur til efnið sem við hana myndast.

Veðrun má flokka á eftirfarandi hátt:
  • Efnaveðrun: Berg grotnar niður fyrir áhrif efna sem eru uppleyst í regn- eða grunnvatni. – Sýrur ýmiskonar, ammoníak og klórsambönd eru dæmi um slík efni.
  • Veðrun af völdum lífvera: Plöntur og dýr bora sig inn í berg eða skríða inn um rifur í því og losa það. Jurtaætur losa einnig um jarðveg. – Ánamaðkar eru sígilt dæmi um jarðvegslosara.
  • Hitabrigðaveðrun: Þótt berg leiði yfirleitt illa hita, getur hitamunur þanið það út eða dregið saman og ysta skorpan fallið af. – Eyðimerkursandur er að miklu leyti tilkominn vegna slíkrar veðrunar
  • Frostveðrun: Frjósi vatn í holrými, þenst það út um 9% og þrýstir af miklum krafti frá sér og getur þannig mulið sprungið eða holótt berg. – Sá hluti þurrlendisjarðvegs hér á landi sem ekki er myndaður úr eldfjallaösku, hefur orðið til við frostveðrun.
  • Frostverkanir: Jarðvegur frýs á vetrum og myndar klakahellu, við þensluna lyftast litlir steinar upp. Við síendurtekinn mun frosts og þíðu þrýstir vatnið einnig til hliðanna og bungar landslagið. – Þúfur og melar má nefna sem dæmi auk þess sem jarðskrið, frostsprungur og freðmýrar eru afleiðingar sömu verkunar.

Rof má svo flokka á þennan máta:
  • Grunnvatnsrof: Lega grunnvatns er mjög háð bergtegundum en leitar jafnan undan bratta. Við vissar aðstæður, vegna jarðlagahalla, basaltganga eða bergsprungna, sprettur það fram sem lindir. – Gvendarbrunnar eru dæmi um slíka uppsprettulind.
  • Árrof: Rof af völdum rennandi vatns er áhrifamest útrænu aflanna, skiptir þá mestu hreinleiki vatnsins og straumhraði. Hreint vatn, í lindarám, brýtur lítið á föstu bergi nema í fossum og kröppum bugðum áa. Jökulár og dragár eru duglegri við að bera fram veðrað efni og grafa sig niður í berg. – Gil og gljúfur eru dæmi um rof vegna ungra vatnsfalla en V-laga dalir eru afleiðingar eldra rennslis. Áreyrar, aurar og óseyrar myndast vegna framburðar veðraðs efnis. Skessukatlar myndast í ám þar sem hringiður hafa gripið með sér grjót.
  • Jökulrof: Jöklum er skipt í tvo flokka, hjarnjökla sem einkenna heimskautalönd, og skriðjökla. Stóru íslensku jöklarnir eru hjarnjöklar en af þeim ganga miklir skriðjöklar. Jöklar skríða undan eigin þunga og flytja með sér bergmylsnu sem frosinn er við botn og jaðra þeirra. Mylsnan virkar líkt og graftól á bergið sem á vegi jökulsins verður og eykur rofið sem jökulskriðið veldur. Jöklar valda víðfeðmara rofi en ár en aðlaga sig frekar landslaginu. – Jökulrákir, hvalbök, grettistök (stórir steinar fluttir um langan veg), jökulurð og -ruðningar eru dæmi um afleiðingar jökulrofs.
  • Sjávarrof: Hreyfingar sjávar skiptast einkum í strauma og bylgjur. Hafstraumar eru það hægfara að þeir hafa sjaldan áhrif á fast berg og sama má segja um sjávarfallastrauma nema í þröngum sundum og á landgrunninu. Bylgjuhreyfingar, öldur og brim, eru mun áhrifameiri. Brim vinnur á föstu bergi fyrst með því að þrýsta saman lofti sem leynist í rifum og sprungum við ágang, og draga síðan loftið út við útsogið. Við það verður til undirþrýstingur í berginu sem mylur það smám saman. Sama má að nokkru leyti segja um rof í stöðuvötnum, nema hvað við þau er rofið mun minna í sniðum, að minnsta kosti hér á landi. – Strendur Íslands eru til vitnis um áhrif sjávarrofs, brimstallar og brimklif (til dæmis Látrabjarg og Hornbjarg) eru víða á vestur-, norður- og austurströnd landsins. Sléttar strendur Suðurlands má skýra útfrá veðurfræðinni – í lægðum snýst vindur þar til útsuðurs sem þrýstir sjónum lengra upp á land. Malarkambar og -rif finnast einnig kringum landið og lón sem myndast hafa þegar þau hafa lokað af firði eða víkur, stundum með aðstoð árframburðar eða jökulburðar. Surtsey er dæmi um hvernig hafið mótar landið og vísindamenn hafa getað fylgst með því frá upphafi.
  • Vindrof: Flestir Íslendingar eru meðvitaðir um áhrif uppblásturs á jarðveg sem tilkominn er vegna þess að skógur hefur horfið af stórum hluta landsins. Uppblástur hefst gjarnan við bakka farvega sem myndast hafa við úrfelli eða snjóleysingar. Vindur getur einnig sorfið berg eða gróður þegar hann ber með bergmylsnu.
  • Skriðuhlaup: Aurskriður, grjóthrun, bergskriður og auðvitað snjóflóð eru velþekkt hér á landi. Í skriðuhlaupum má segja að áhrif þyngdaraflsins á rof séu augljósust þótt aðrir þættir þurfi að bætast við sem skapað hafa halla og þverhnípi. – Vatnsdalshólar eru dæmi um skriðuhlaup, nánar tiltekið bergskriðu.
Heimild:
  • Þorleifur Einarsson, Jarðfræði, 5. útg., Mál og menning, Reykjavík 1985.
...