Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað er á milli himins og jarðar?

Henry Alexander Henrysson

Svarið við þessari sígildu gátu er auðvitað „og“. Sver hún sig þar í ætt við svipaðar gátur sem hafa skemmt fólki í gegnum árin. En eins og svo margar gátur sem eitthvað er spunnið í þá býður hún einnig upp á áhugaverðar heimspekilegar vangaveltur. Raunar má segja að heimspeki sé ekkert annað en leit að svörum við helstu gátum sem sótt hafa á mannsandann í gegnum söguna. Má þar til dæmis nefna þann mikla leyndardóm hvernig svona snyrtilegt „m“ er sett á hvert eitt og einasta m&m.

Eitt af viðfangsefnum heimspekinnar hefur verið frá örófi alda að leitast við að svara því hvað getur verið viðfangsefni þessara frumspekilegu spurninga sem á okkur leita. Hvað er það sem við vísum til þegar við segjumst ræða allt milli himins og jarðar? Hvað er það sem þá er viðfangsefni tungumálsins? Sú grein heimspekinnar sem leitast við að svara þeirri spurningu er elsta og mikilvægasta undirgrein frumspekinnar, verufræðin.

Hvað er það sem við vísum til þegar við segjumst ræða allt milli himins og jarðar? Myndin sýnir Galíleó Galílei horfa í gegnum sjónauka ásamt hópi manna á Markúsartorginu í Feneyjum.

Eitt af markmiðum verufræðinnar er að hjálpa okkur til að gera okkur grein fyrir hvað við getum sagt um tiltekin fyrirbæri. Ber þar hæst sú spurning hvort og hvernig mögulegt er að mynda sannar setningar um það sem er til. Hefðbundin verufræði skiptir sér lítið af því hvort eitthvað sé til ef tilvist þess er á nokkurn hátt „á huldu“, eins og sagt er. Má þar kannski helst nefna margs konar yfirskilvitleg fyrirbæri. Aðrar greinar frumspekinnar láta það eftir sér að fást við slíkar gátur. Er þar náttúruleg guðfræði fremst í flokki. Ein meginforsenda verufræðinnar er að heimurinn eins og hann birtist okkur sé nægilega flókinn og margbrotinn til að kalla ekki á fleiri, og líklega óþarfar, spurningar.

Hvað er milli himins og jarðar? er auðvitað orðatiltæki. Ef spurningin er ekki tekin sem gáta sem inniheldur litla og snjalla skrýtlu þá vísar hún væntanlega til alls þess sem er, jafnt ofan himins og innan jarðar. Og hvað er þetta allt sem er? Það getur enginn talið það allt upp af eigin reynslu. Við þurfum að setja fram nokkurs konar flokkun til að gera okkur grein fyrir því. Hver vísindagrein fyrir sig á sína flokkun, hugtök og heiti. Jarðfræði, líffræði og stjörnufræði beina sjónum sínum til dæmis að ákveðnum viðfangsefnum og gefa þeim heiti á borð við glerhallur, tígrisdýr og rauður risi. Það sem gerir verufræðina svo sérstaka að hún leitar ávallt flokkunar sem er öllum vísindagreinum sameiginleg. Hún fjallar ekki um hvern hlut fyrir sig eða tegundir þeirra en beinir sjónum sínum þess í stað að því hver sé grundvöllur þessara hluta.

Hvernig getum við skipt niður því sem er? Fyrst greinum við á milli þess sem er almennt og þess sem er einstakt. Hið almenna er þá allt sem getur verið ólíkum hlutum sameiginlegt. Við nefnum það oft eiginleika. Margir hlutir geta til dæmis haft þann eiginleika að vera rauður. Rauður litur er því dæmi um eitthvað almennt sem getur átt við ólíka hluti. Hið einstaka er margbrotnara. Sumt er hlutbundið á meðan annað er meira óhlutbundið. Dæmi um það seinna væri til dæmis tölur. Þær eru eins einstakar og nokkuð getur verið en það væri einkennilegt að kalla þær hluti. Það sem er hlutbundið getur hvort sem er verið hluturinn sjálfur eða atvik sem hlutir eru valdir að. Til dæmis er árekstur varla óhlutbundinn, en hann er ekki hlutur sjálfur. En hvað eru þá hlutirnir sjálfir, það sem raunverulega er milli himins og jarðar?

Varða sem ferðamaður hefur byggt er ekki hlutur í sama skilningi og til dæmis ferðamaðurinn sjálfur.

Hér vandast aðeins málið og hafa verufræðingar deilt um það öldum saman. Sumir segja að raunverulegir hlutir hafi í sér forsendu fyrir tilvist sinni og að hægt sé að útskýra þá í ljósi þessarar forsendu. Þeir greina þannig á milli raunverulegra hluta og þess sem er einungis samansafn parta. Varða sem ferðamaður hefur hlaðið við veghlið er samkvæmt slíkum skilningi hlutur, en ekki hlutur í sama skilningi og til dæmis ferðamaðurinn sjálfur. Aðrir verufræðingar segja að þetta geti ekki verið svona einfalt. Allt sé í raun ekkert annað en samansafn ólíkra parta og einstakt í því ljósi.

Að lokum má geta þess að í sögu heimspekinnar er einnig löng hefð fyrir því að greina á milli þess að vera til og þess að vera. Seinni nálgunin snertir meira tilvist mannsins, einkenni þeirrar tilvistar, vonir og vonbrigði. Er hún þekktust úr verkum heimspekinga eins og Martins Heidegger (1889–1976) og Jean-Pauls Sartre (1905–1980). Útskýringar á verunni, þess að vera, þurfa ekki að vera á sviði verufræði enda fyrst og fremst hluti naflaskoðunar einnar tegundar og segja okkur ekki alltaf mikið um það hvað raunverulega er milli himins og jarðar.

Mynd:

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

24.3.2017

Spyrjandi

Thelma Lind Victorsdóttir, f. 2001

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Hvað er á milli himins og jarðar?“ Vísindavefurinn, 24. mars 2017. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58171.

Henry Alexander Henrysson. (2017, 24. mars). Hvað er á milli himins og jarðar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58171

Henry Alexander Henrysson. „Hvað er á milli himins og jarðar?“ Vísindavefurinn. 24. mar. 2017. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58171>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er á milli himins og jarðar?
Svarið við þessari sígildu gátu er auðvitað „og“. Sver hún sig þar í ætt við svipaðar gátur sem hafa skemmt fólki í gegnum árin. En eins og svo margar gátur sem eitthvað er spunnið í þá býður hún einnig upp á áhugaverðar heimspekilegar vangaveltur. Raunar má segja að heimspeki sé ekkert annað en leit að svörum við helstu gátum sem sótt hafa á mannsandann í gegnum söguna. Má þar til dæmis nefna þann mikla leyndardóm hvernig svona snyrtilegt „m“ er sett á hvert eitt og einasta m&m.

Eitt af viðfangsefnum heimspekinnar hefur verið frá örófi alda að leitast við að svara því hvað getur verið viðfangsefni þessara frumspekilegu spurninga sem á okkur leita. Hvað er það sem við vísum til þegar við segjumst ræða allt milli himins og jarðar? Hvað er það sem þá er viðfangsefni tungumálsins? Sú grein heimspekinnar sem leitast við að svara þeirri spurningu er elsta og mikilvægasta undirgrein frumspekinnar, verufræðin.

Hvað er það sem við vísum til þegar við segjumst ræða allt milli himins og jarðar? Myndin sýnir Galíleó Galílei horfa í gegnum sjónauka ásamt hópi manna á Markúsartorginu í Feneyjum.

Eitt af markmiðum verufræðinnar er að hjálpa okkur til að gera okkur grein fyrir hvað við getum sagt um tiltekin fyrirbæri. Ber þar hæst sú spurning hvort og hvernig mögulegt er að mynda sannar setningar um það sem er til. Hefðbundin verufræði skiptir sér lítið af því hvort eitthvað sé til ef tilvist þess er á nokkurn hátt „á huldu“, eins og sagt er. Má þar kannski helst nefna margs konar yfirskilvitleg fyrirbæri. Aðrar greinar frumspekinnar láta það eftir sér að fást við slíkar gátur. Er þar náttúruleg guðfræði fremst í flokki. Ein meginforsenda verufræðinnar er að heimurinn eins og hann birtist okkur sé nægilega flókinn og margbrotinn til að kalla ekki á fleiri, og líklega óþarfar, spurningar.

Hvað er milli himins og jarðar? er auðvitað orðatiltæki. Ef spurningin er ekki tekin sem gáta sem inniheldur litla og snjalla skrýtlu þá vísar hún væntanlega til alls þess sem er, jafnt ofan himins og innan jarðar. Og hvað er þetta allt sem er? Það getur enginn talið það allt upp af eigin reynslu. Við þurfum að setja fram nokkurs konar flokkun til að gera okkur grein fyrir því. Hver vísindagrein fyrir sig á sína flokkun, hugtök og heiti. Jarðfræði, líffræði og stjörnufræði beina sjónum sínum til dæmis að ákveðnum viðfangsefnum og gefa þeim heiti á borð við glerhallur, tígrisdýr og rauður risi. Það sem gerir verufræðina svo sérstaka að hún leitar ávallt flokkunar sem er öllum vísindagreinum sameiginleg. Hún fjallar ekki um hvern hlut fyrir sig eða tegundir þeirra en beinir sjónum sínum þess í stað að því hver sé grundvöllur þessara hluta.

Hvernig getum við skipt niður því sem er? Fyrst greinum við á milli þess sem er almennt og þess sem er einstakt. Hið almenna er þá allt sem getur verið ólíkum hlutum sameiginlegt. Við nefnum það oft eiginleika. Margir hlutir geta til dæmis haft þann eiginleika að vera rauður. Rauður litur er því dæmi um eitthvað almennt sem getur átt við ólíka hluti. Hið einstaka er margbrotnara. Sumt er hlutbundið á meðan annað er meira óhlutbundið. Dæmi um það seinna væri til dæmis tölur. Þær eru eins einstakar og nokkuð getur verið en það væri einkennilegt að kalla þær hluti. Það sem er hlutbundið getur hvort sem er verið hluturinn sjálfur eða atvik sem hlutir eru valdir að. Til dæmis er árekstur varla óhlutbundinn, en hann er ekki hlutur sjálfur. En hvað eru þá hlutirnir sjálfir, það sem raunverulega er milli himins og jarðar?

Varða sem ferðamaður hefur byggt er ekki hlutur í sama skilningi og til dæmis ferðamaðurinn sjálfur.

Hér vandast aðeins málið og hafa verufræðingar deilt um það öldum saman. Sumir segja að raunverulegir hlutir hafi í sér forsendu fyrir tilvist sinni og að hægt sé að útskýra þá í ljósi þessarar forsendu. Þeir greina þannig á milli raunverulegra hluta og þess sem er einungis samansafn parta. Varða sem ferðamaður hefur hlaðið við veghlið er samkvæmt slíkum skilningi hlutur, en ekki hlutur í sama skilningi og til dæmis ferðamaðurinn sjálfur. Aðrir verufræðingar segja að þetta geti ekki verið svona einfalt. Allt sé í raun ekkert annað en samansafn ólíkra parta og einstakt í því ljósi.

Að lokum má geta þess að í sögu heimspekinnar er einnig löng hefð fyrir því að greina á milli þess að vera til og þess að vera. Seinni nálgunin snertir meira tilvist mannsins, einkenni þeirrar tilvistar, vonir og vonbrigði. Er hún þekktust úr verkum heimspekinga eins og Martins Heidegger (1889–1976) og Jean-Pauls Sartre (1905–1980). Útskýringar á verunni, þess að vera, þurfa ekki að vera á sviði verufræði enda fyrst og fremst hluti naflaskoðunar einnar tegundar og segja okkur ekki alltaf mikið um það hvað raunverulega er milli himins og jarðar.

Mynd:

...