Sólin Sólin Rís 11:09 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:16 • Sest 13:57 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:20 • Síðdegis: 23:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:58 • Síðdegis: 17:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:09 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:16 • Sest 13:57 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:20 • Síðdegis: 23:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:58 • Síðdegis: 17:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju var arsen svona vinsælt morðvopn áður fyrr?

Valgerður Jakobína Hjaltalín

Ekki er vitað hvenær eða hverjum hugkvæmdist fyrst að nota arsen til þess að bana annarri manneskju. Til þess þurfti þó ekki endilega mikla hugvitssemi þar sem arsen er algeng hliðarafurð við vinnslu ýmissa málma og því lítill skortur á efninu. Forngrikkir og Rómverjar þekktu vafalaust banvæna eiginleika arsens, en vegna þess að greiningarpróf urðu ekki til fyrr en á 19. öld og einkenni bráðrar arseneitrunar líkjast matarsýkingum, svo sem af völdum kóleru, er erfitt að staðfesta með fullri vissu hvort arsen hafi komið við sögu í einstaka dauðsföllum fyrr á öldum.

Valdamiklar fjölskyldur á Ítalíu á 15. öld urðu þekktar fyrir notkun arsens, en líklegt er þó að sögurnar hafi verið ýktar, enda hefur eitur af ýmsu tagi löngum verið vinsælt viðfangsefni í bókmenntum og öðrum frásögnum. Í þessu sambandi má nefna Borgia-fjölskylduna, og þá sérstaklega Rodrigo Borgia (1431-1503), sem síðar varð Alexander 6. páfi árið 1492 og tvö börn hans, Cesare og Lucrezia, sem sögð eru hafa eitrað fyrir fjölda manns af pólitískum ástæðum. Líklegt er þó að Lucrezia hafi verið bendluð við þessi mál að ósekju.[1][2]

Vínglas með Cesare Borgia (1893), málverk eftir John Collier.

Vínglas með Cesare Borgia (1893), málverk eftir John Collier.

Loðvík 14. Frakklandskonungur óttaðist svo um líf sitt vegna orðróms um byrlanir á 17. öld að hann stofnaði sérstaka nefnd til að rannsaka málið. Störf nefndarinnar leiddu til réttarhalda yfir 104 einstaklingum og þar af voru 34 teknir af lífi, en aðrir gerðir útlægir eða fangelsaðir. Líklegt er að ekki hafi allir átt skilið þau örlög. Jafnframt var það gert að skilyrði að þau sem yrðu uppvís að því að selja eitur í annarlegum tilgangi yrðu dæmd til dauða, óháð því hvort eitrið hafi orðið nokkrum að bana.[3][4]

Bresk rannsókn á 540 þarlendum byrlunarmálum milli 1759-1914 leiddi í ljós að arsen kom við sögu í 237 málum, en næst algengast var ópíum, í 52 málum. Fyrir 1851 giltu engar reglugerðir um sölu eiturs á Englandi. Arsen var bæði ódýrt og auðvelt að útvega, en það var auk þess gjarnan notað sem rottueitur. Þrátt fyrir tengsl arsens við morð á valdamiklum einstaklingum var efnið frekar eitur fátæka fólksins, að minnsta kosti á Englandi. Eitur hefur jafnframt gjarnan verið álitið morðvopn kvenna, en áðurnefnd rannsókn leiddi í ljós nokkuð jöfn kynjahlutföll í þessum málaflokki. Þó verður að taka inn í myndina hlutföll milli kynja þegar kemur að ofbeldisglæpum almennt. Þannig voru karlmenn þrisvar sinnum líklegri til að fremja morð, en af þeim konum sem frömdu morð voru þær mun líklegri en menn til að notast við eitur.[5][6]

Árið 1832 urðu kaflaskil í greiningu arsens þegar breski efnafræðingurinn James Marsh ákvað að leita leiða til að greina efnið svo hægt væri að skera úr um tilvist þess fyrir dómi. Aðferð hans kallast Marsh-prófið og var fyrst notuð þegar réttað var yfir Marie LaFarge árið 1840 í Frakklandi. LaFarge var gefið að sök að hafa banað manni sínum með arsen-menguðum kökum. Prófið felst í því að blanda sýni úr efninu sem er til skoðunar við sink og brennisteinssýru. Við hitun myndast gas sem kveikt er í. Sé arsen til staðar (svo lítið sem 0,02 mg) safnast málmkennd slikja fyrir á gleri tilraunabúnaðarins. Framkvæmd Marsh-prófsins krafðist þó nokkurrar nákvæmni og einnig þurfti að bíða í nokkrar klukkustundir eftir niðurstöðu sem auðveldlega gat verið misvísandi ef ekki var farið rétt að.

Árið 1841 þróaði þýski efnafræðingurinn Hugo Reinsch fljótlegra og einfaldara próf. Það fólst í því að dýfa koparfilmu í sjóðandi lausn af sýni. Ef arsen var til staðar hvarfaðist það við koparinn og grá útfelling myndaðist á koparfilmunni, sem síðan við hitun myndaði hvíta kristalla. Bæði próf voru mikið notuð fyrr á tíð.[7]

Teikning af Marsh-prófinu. Sýninu var blandað við brennisteinssýru og sink. Við hitun myndast gas sem leitt er gegnum glerpípu og kveikt í. Sé arsenik til staðar myndast málmkennd slikja á glerinu.

Teikning af Marsh-prófinu. Sýninu var blandað við brennisteinssýru og sink. Við hitun myndast gas sem leitt er gegnum glerpípu og kveikt í. Sé arsenik til staðar myndast málmkennd slikja á glerinu.

Þrátt fyrir þessi próf var þó lengi vel áskorun að greina hægfara arseneitrun, það er að segja þegar fólk komst í snertingu við efnið í smærri skömmtum yfir lengri tíma. Í morðmálum krefst slík byrlun þess að gerandi hafi nokkuð ótakmarkaðan aðgang að fórnarlambinu. Arsen skilar sér í keratín-ríka vefi, eins og hár og neglur, eftir um tvær vikur. Með nútíma greiningaraðferðum má þannig greina arsen í hári, en einnig tímasetja eitrunina, byggt á því hve langt frá hársverði arsenið finnst. Síðkomin eitrun veldur þó ákveðnum einkennum sem ekki eru jafn almenn og þau sem einkenna bráðatilvik. Afgerandi einkenni koma fram á húð og einnig geta komið fram einkenni frá taugakerfi, ásamt uppköstum og niðurgangi líkt og einkennir bráðatilvik. Arsen er auk þess krabbameinsvaldandi, en slík áhrif koma þó ekki fram fyrr en löngu síðar.[8][9][10]

Þrátt fyrir næm greiningarpróf nú til dags hafa komið upp tilvik arsenbyrlunar á okkar dögum. Árið 2003, í litlum bæ í Maine í Bandaríkjunum, leituðu 12 manns sér læknisaðstoðar vegna uppkasta og niðurgangs í kjölfar samkomu í kirkjunni að morgni sama dags. Innan við 16 klukkustundum frá samkomunni hafði einn einstaklingur látist og tveir til viðbótar voru komnir með alvarlega líffærabilun. Í fyrstu var talið að um matarsýkingu væri að ræða en hraður framgangur veikindanna var óeðlilegur. Í ljós kom að kirkjugestum hafði verið byrlað arsen í kaffi sem borið var fram á samkomunni.[11]

Að lokum má nefna að þrátt fyrir eituráhrif sín (eða jafnvel að hluta til vegna þeirra) hefur arsen einnig verið notað til heilsubóta og í læknisfræðilegum tilgangi. Rekja má þá sögu allt aftur til 2000 f.Kr. Hippókrates, sem nefndur hefur verið faðir læknisfræðinnar, er talinn hafa notað arsensmyrsl til að meðhöndla sár og ígerðir. Best þekkta notkun arsens í læknisfræðilegum tilgangi er þó svonefnd Fowler-lausn sem innihélt 1% kalín-arsenít og var notuð gegn ýmsum kvillum, svo sem malaríu, holdsveiki, astma, exemi, og psoriasis. Árið 1910 kynnti þýski læknirinn Paul Ehrlich nýtt arsenmeðal til sögunnar, kallað Salvarsan, og virkaði það vel til meðhöndlunar á holdsveiki. Salvarsan var notað allt þar til penisilín var uppgötvað á fimmta áratug 20. aldar. Arsen reyndist líka gagnlegt í meðhöndlun á krabbameinum, sérstaklega hvítblæði.[12]

Samantekt

  • Vinsældir arsens sem eiturs skýrast mikið til af því hve aðgengilegt og ódýrt það var. Það var til dæmis notað í rottueitur, skordýraeitur, og í ýmsum iðnaði. Jafnframt er arsen bæði bragð- og lyktarlaust.
  • Fram til 1832 voru ekki almennileg próf til að greina arsen og bráðaeitrun minnir um margt á kólerusýkingar.
  • Ómögulegt er að staðfesta með fullri vissu notkun arsens í ýmsum þekktum morðmálum fyrr á tíð. Líklegt er að ýmsar slíkar sögur séu ýktar, enda hefur eitur lengi verið vinsælt viðfangsefni bókmennta og annarra frásagna.

Tilvísanir:
  1. ^ Hughes o.fl., 2011.
  2. ^ Parascandola, 2012.
  3. ^ Hughes o.fl., 2011.
  4. ^ Parascandola, 2012.
  5. ^ Parascandola, 2012.
  6. ^ Watson, 2004.
  7. ^ Parascandola, 2012.
  8. ^ Jakob Kristinsson, 2013.
  9. ^ Hughes o.fl., 2011.
  10. ^ Poklis og Joseph, 1990.
  11. ^ Gensheimer o.fl., 2010.
  12. ^ Hughes o.fl., 2011.

Heimildir:
  • Jakob Kristinsson. (2013). Nú hefur arsen í hrísgrjónum og hrísmjólk verið töluvert í fréttum, hvað er arsen og hvers konar eitrunaráhrifum getur það valdið? Vísindavefurinn. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=64310
  • Gupta, D. K. o.fl. (2017). Arsenic Contamination from Historical Aspects to the Present. Í D. K. Gupta & S. Chatterjee (ritstj.), Arsenic Contamination in the Environment: The Issues and Solutions (bls. 1-12). Springer International Publishing. https://doi.org/10.1007/978-3-319-54356-7_1
  • Hughes, M. F. o.fl. (2011). Arsenic exposure and toxicology: a historical perspective. Toxicological sciences, 123(2), 305-332. https://doi.org/10.1093/toxsci/kfr184
  • Parascandola, J. (2012). King of poisons: a history of arsenic. Potomac books, Washington, D. C.
  • Watson, K. (2004). Poisoned lives: English poisoners and their victims. MPG Books, Cornwall.
  • Poklis, A. og Joseph, S. (1990). Acute or chronic? Suicide or murder? The American journal of forensic medicine and pathology, 11(3), 226-232. https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/2220708/
  • Gensheimer, K. F. o.fl. (2010). Arsenic poisoning caused by intentional contamination of coffee at a church gathering – an epidemiological approach to a forensic investigation. Journal of forensic sciences, 55(4), 1116-1119. https://doi.org/10.1111/j.1556-4029.2010.01375.x

Myndir:

Höfundur

Valgerður Jakobína Hjaltalín

nýdoktor á Heilbrigðisvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

11.12.2025

Spyrjandi

Kristján Örn Róbertsson

Tilvísun

Valgerður Jakobína Hjaltalín. „Af hverju var arsen svona vinsælt morðvopn áður fyrr?“ Vísindavefurinn, 11. desember 2025, sótt 11. desember 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=59341.

Valgerður Jakobína Hjaltalín. (2025, 11. desember). Af hverju var arsen svona vinsælt morðvopn áður fyrr? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59341

Valgerður Jakobína Hjaltalín. „Af hverju var arsen svona vinsælt morðvopn áður fyrr?“ Vísindavefurinn. 11. des. 2025. Vefsíða. 11. des. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59341>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju var arsen svona vinsælt morðvopn áður fyrr?
Ekki er vitað hvenær eða hverjum hugkvæmdist fyrst að nota arsen til þess að bana annarri manneskju. Til þess þurfti þó ekki endilega mikla hugvitssemi þar sem arsen er algeng hliðarafurð við vinnslu ýmissa málma og því lítill skortur á efninu. Forngrikkir og Rómverjar þekktu vafalaust banvæna eiginleika arsens, en vegna þess að greiningarpróf urðu ekki til fyrr en á 19. öld og einkenni bráðrar arseneitrunar líkjast matarsýkingum, svo sem af völdum kóleru, er erfitt að staðfesta með fullri vissu hvort arsen hafi komið við sögu í einstaka dauðsföllum fyrr á öldum.

Valdamiklar fjölskyldur á Ítalíu á 15. öld urðu þekktar fyrir notkun arsens, en líklegt er þó að sögurnar hafi verið ýktar, enda hefur eitur af ýmsu tagi löngum verið vinsælt viðfangsefni í bókmenntum og öðrum frásögnum. Í þessu sambandi má nefna Borgia-fjölskylduna, og þá sérstaklega Rodrigo Borgia (1431-1503), sem síðar varð Alexander 6. páfi árið 1492 og tvö börn hans, Cesare og Lucrezia, sem sögð eru hafa eitrað fyrir fjölda manns af pólitískum ástæðum. Líklegt er þó að Lucrezia hafi verið bendluð við þessi mál að ósekju.[1][2]

Vínglas með Cesare Borgia (1893), málverk eftir John Collier.

Vínglas með Cesare Borgia (1893), málverk eftir John Collier.

Loðvík 14. Frakklandskonungur óttaðist svo um líf sitt vegna orðróms um byrlanir á 17. öld að hann stofnaði sérstaka nefnd til að rannsaka málið. Störf nefndarinnar leiddu til réttarhalda yfir 104 einstaklingum og þar af voru 34 teknir af lífi, en aðrir gerðir útlægir eða fangelsaðir. Líklegt er að ekki hafi allir átt skilið þau örlög. Jafnframt var það gert að skilyrði að þau sem yrðu uppvís að því að selja eitur í annarlegum tilgangi yrðu dæmd til dauða, óháð því hvort eitrið hafi orðið nokkrum að bana.[3][4]

Bresk rannsókn á 540 þarlendum byrlunarmálum milli 1759-1914 leiddi í ljós að arsen kom við sögu í 237 málum, en næst algengast var ópíum, í 52 málum. Fyrir 1851 giltu engar reglugerðir um sölu eiturs á Englandi. Arsen var bæði ódýrt og auðvelt að útvega, en það var auk þess gjarnan notað sem rottueitur. Þrátt fyrir tengsl arsens við morð á valdamiklum einstaklingum var efnið frekar eitur fátæka fólksins, að minnsta kosti á Englandi. Eitur hefur jafnframt gjarnan verið álitið morðvopn kvenna, en áðurnefnd rannsókn leiddi í ljós nokkuð jöfn kynjahlutföll í þessum málaflokki. Þó verður að taka inn í myndina hlutföll milli kynja þegar kemur að ofbeldisglæpum almennt. Þannig voru karlmenn þrisvar sinnum líklegri til að fremja morð, en af þeim konum sem frömdu morð voru þær mun líklegri en menn til að notast við eitur.[5][6]

Árið 1832 urðu kaflaskil í greiningu arsens þegar breski efnafræðingurinn James Marsh ákvað að leita leiða til að greina efnið svo hægt væri að skera úr um tilvist þess fyrir dómi. Aðferð hans kallast Marsh-prófið og var fyrst notuð þegar réttað var yfir Marie LaFarge árið 1840 í Frakklandi. LaFarge var gefið að sök að hafa banað manni sínum með arsen-menguðum kökum. Prófið felst í því að blanda sýni úr efninu sem er til skoðunar við sink og brennisteinssýru. Við hitun myndast gas sem kveikt er í. Sé arsen til staðar (svo lítið sem 0,02 mg) safnast málmkennd slikja fyrir á gleri tilraunabúnaðarins. Framkvæmd Marsh-prófsins krafðist þó nokkurrar nákvæmni og einnig þurfti að bíða í nokkrar klukkustundir eftir niðurstöðu sem auðveldlega gat verið misvísandi ef ekki var farið rétt að.

Árið 1841 þróaði þýski efnafræðingurinn Hugo Reinsch fljótlegra og einfaldara próf. Það fólst í því að dýfa koparfilmu í sjóðandi lausn af sýni. Ef arsen var til staðar hvarfaðist það við koparinn og grá útfelling myndaðist á koparfilmunni, sem síðan við hitun myndaði hvíta kristalla. Bæði próf voru mikið notuð fyrr á tíð.[7]

Teikning af Marsh-prófinu. Sýninu var blandað við brennisteinssýru og sink. Við hitun myndast gas sem leitt er gegnum glerpípu og kveikt í. Sé arsenik til staðar myndast málmkennd slikja á glerinu.

Teikning af Marsh-prófinu. Sýninu var blandað við brennisteinssýru og sink. Við hitun myndast gas sem leitt er gegnum glerpípu og kveikt í. Sé arsenik til staðar myndast málmkennd slikja á glerinu.

Þrátt fyrir þessi próf var þó lengi vel áskorun að greina hægfara arseneitrun, það er að segja þegar fólk komst í snertingu við efnið í smærri skömmtum yfir lengri tíma. Í morðmálum krefst slík byrlun þess að gerandi hafi nokkuð ótakmarkaðan aðgang að fórnarlambinu. Arsen skilar sér í keratín-ríka vefi, eins og hár og neglur, eftir um tvær vikur. Með nútíma greiningaraðferðum má þannig greina arsen í hári, en einnig tímasetja eitrunina, byggt á því hve langt frá hársverði arsenið finnst. Síðkomin eitrun veldur þó ákveðnum einkennum sem ekki eru jafn almenn og þau sem einkenna bráðatilvik. Afgerandi einkenni koma fram á húð og einnig geta komið fram einkenni frá taugakerfi, ásamt uppköstum og niðurgangi líkt og einkennir bráðatilvik. Arsen er auk þess krabbameinsvaldandi, en slík áhrif koma þó ekki fram fyrr en löngu síðar.[8][9][10]

Þrátt fyrir næm greiningarpróf nú til dags hafa komið upp tilvik arsenbyrlunar á okkar dögum. Árið 2003, í litlum bæ í Maine í Bandaríkjunum, leituðu 12 manns sér læknisaðstoðar vegna uppkasta og niðurgangs í kjölfar samkomu í kirkjunni að morgni sama dags. Innan við 16 klukkustundum frá samkomunni hafði einn einstaklingur látist og tveir til viðbótar voru komnir með alvarlega líffærabilun. Í fyrstu var talið að um matarsýkingu væri að ræða en hraður framgangur veikindanna var óeðlilegur. Í ljós kom að kirkjugestum hafði verið byrlað arsen í kaffi sem borið var fram á samkomunni.[11]

Að lokum má nefna að þrátt fyrir eituráhrif sín (eða jafnvel að hluta til vegna þeirra) hefur arsen einnig verið notað til heilsubóta og í læknisfræðilegum tilgangi. Rekja má þá sögu allt aftur til 2000 f.Kr. Hippókrates, sem nefndur hefur verið faðir læknisfræðinnar, er talinn hafa notað arsensmyrsl til að meðhöndla sár og ígerðir. Best þekkta notkun arsens í læknisfræðilegum tilgangi er þó svonefnd Fowler-lausn sem innihélt 1% kalín-arsenít og var notuð gegn ýmsum kvillum, svo sem malaríu, holdsveiki, astma, exemi, og psoriasis. Árið 1910 kynnti þýski læknirinn Paul Ehrlich nýtt arsenmeðal til sögunnar, kallað Salvarsan, og virkaði það vel til meðhöndlunar á holdsveiki. Salvarsan var notað allt þar til penisilín var uppgötvað á fimmta áratug 20. aldar. Arsen reyndist líka gagnlegt í meðhöndlun á krabbameinum, sérstaklega hvítblæði.[12]

Samantekt

  • Vinsældir arsens sem eiturs skýrast mikið til af því hve aðgengilegt og ódýrt það var. Það var til dæmis notað í rottueitur, skordýraeitur, og í ýmsum iðnaði. Jafnframt er arsen bæði bragð- og lyktarlaust.
  • Fram til 1832 voru ekki almennileg próf til að greina arsen og bráðaeitrun minnir um margt á kólerusýkingar.
  • Ómögulegt er að staðfesta með fullri vissu notkun arsens í ýmsum þekktum morðmálum fyrr á tíð. Líklegt er að ýmsar slíkar sögur séu ýktar, enda hefur eitur lengi verið vinsælt viðfangsefni bókmennta og annarra frásagna.

Tilvísanir:
  1. ^ Hughes o.fl., 2011.
  2. ^ Parascandola, 2012.
  3. ^ Hughes o.fl., 2011.
  4. ^ Parascandola, 2012.
  5. ^ Parascandola, 2012.
  6. ^ Watson, 2004.
  7. ^ Parascandola, 2012.
  8. ^ Jakob Kristinsson, 2013.
  9. ^ Hughes o.fl., 2011.
  10. ^ Poklis og Joseph, 1990.
  11. ^ Gensheimer o.fl., 2010.
  12. ^ Hughes o.fl., 2011.

Heimildir:
  • Jakob Kristinsson. (2013). Nú hefur arsen í hrísgrjónum og hrísmjólk verið töluvert í fréttum, hvað er arsen og hvers konar eitrunaráhrifum getur það valdið? Vísindavefurinn. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=64310
  • Gupta, D. K. o.fl. (2017). Arsenic Contamination from Historical Aspects to the Present. Í D. K. Gupta & S. Chatterjee (ritstj.), Arsenic Contamination in the Environment: The Issues and Solutions (bls. 1-12). Springer International Publishing. https://doi.org/10.1007/978-3-319-54356-7_1
  • Hughes, M. F. o.fl. (2011). Arsenic exposure and toxicology: a historical perspective. Toxicological sciences, 123(2), 305-332. https://doi.org/10.1093/toxsci/kfr184
  • Parascandola, J. (2012). King of poisons: a history of arsenic. Potomac books, Washington, D. C.
  • Watson, K. (2004). Poisoned lives: English poisoners and their victims. MPG Books, Cornwall.
  • Poklis, A. og Joseph, S. (1990). Acute or chronic? Suicide or murder? The American journal of forensic medicine and pathology, 11(3), 226-232. https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/2220708/
  • Gensheimer, K. F. o.fl. (2010). Arsenic poisoning caused by intentional contamination of coffee at a church gathering – an epidemiological approach to a forensic investigation. Journal of forensic sciences, 55(4), 1116-1119. https://doi.org/10.1111/j.1556-4029.2010.01375.x

Myndir:...