Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað getur þú sagt mér um dýralífið í Katar?

Jón Már Halldórsson

Katar (e. Qatar) er ríki á Katarskaga við suðvestanverðan Persaflóa en skagi þessi gengur norður úr austurströnd Arabíuskaga. Landið er rúmlega 11,5 þúsund ferkílómetrar að stærð eða um 1/9 af flatarmáli Íslands og að stórum hluta eyðimörk. Yfir sumartímann getur hitinn þar farið allt upp í 50ºC yfir heitasta tíma dagsins en svalara er á öðrum árstímum. Úrkoma er mjög lítil, innan við 75 mm á ári, og hún fellur að mestu yfir vetrartímann. Eðlilega markast dýralífið í landinu af þessum sérstöku aðstæðum.

Alls finnast um eða yfir 20 tegundir landspendýra í Katar auk þess sem sækýr (Dugong dugon) lifa við strendur landsins. Í reynd er þar ein mesta samsöfnun sækúa í Persaflóanum eða um nokkur hundruð dýr sem geta haldið til í hjörðum á grunnsævinu við strendur landsins.

Stafantílópan (Oryx leucoryx) er þjóðardýr Katar.

Stærstu þurrlendisspendýrin í Katar eru stafantílópan (Oryx leucoryx) og arabíska gasellan (Gazella marica). Þessar tegundir eru alfriðaðar í landinu sem og annars staðar á Arabíuskaganum. Segja má að stafantílópan sé einkennisdýr Arabíuskagans, svo sterkt er hún tengd ímynd náttúru skagans. Raunar er hún þjóðardýr nokkurra lands, þeirra á meðal Katar. Saga stafantílópunnar er nokkuð áhugaverð því eftir margar ára hnignun stofnsins, mikið til vegna veiða, var síðasta villta dýrið fellt árið 1972 í landinu Óman. Sem betur fer hafði verið sett af stað verkefni áratug áður sem gekk út á að fjölga dýrum í haldi manna og bjarga þannig tegundinni. Fyrstu ræktuðu dýrunum var sleppt í Óman 1982 og síðan bættust smám saman fleiri lönd við. Í dag er talið að villti stofninn sé allt að 1.200 dýr í nokkrum löndum, þar á meðal í Katar þar sem þau lifa á afmörkuðum verndarsvæðum.

Flestar spendýrategundir í landinu tilheyra ættbálki nagdýra (Rodentia), líklega níu talsins. Þar af eru þrjár innfluttar tegundir, húsamús (Mus musculus) og rottutegundirnar tvær sem hafa alheimsútbreiðslu, það er svartrotta (Rattus rattus) og brúnrotta (Rattus norvegicus) en þetta eru einmitt tegundir sem einnig hafa borist hingað til lands.

Meðal annarra spendýra má til dæmis nefna tvær tegundir refa (Vulpes vulpes og Vulpes rueppellii), gullsjakala (Canis aureus), hunangsgreifingja (Mellivora capensis) og tvær tegundir leðurblaka (Otonycteris hemprichi og Asellia tridens).

Alls hafa sést yfir 350 tegundir fugla í Katar en aðeins hluti þeirra lifir þar allt árið, margar tegundir hafa þar aðeins stutta viðdvöl á vorin og haustin þegar þær eru að fara á milli varpstöðva og vetrarstöðva. Spörfuglar eru algengastir þessara farfugla, svo sem ýmsar tegundir af svölum og svölungum, auk fleiri tegunda. Ef farið er í fuglaskoðun í þurra eyðimörkina að sumarlagi má meðal annars sjá þar nokkrar tegundir lævirkja. Fuglar sem finnast við strendur landsins eru meðal annars nokkrar mávategundir, þernutegundir og tildrur, svo dæmi séu nefnd.

Strútar finnast inn til landsins og þá á verndarsvæðinu Ras Abroug. Þetta er að vísu ekki sú strútategund sem upprunalega fannst á Arabíuskaganum, heldur norður-afríski strúturinn (Struthio camelus camelus). Áður fyrr lifði sýrlenski strúturinn (Struthio camelus syriacus) í Miðausturlöndum en er nú aldauða. Hann hvarf úr fánu Katar fyrir 1950 en á ofanverðri síðustu öld voru norður-afrískir strútar fluttir til landsins og hefur þeim vegnað ágætlega.

Eðla af tegundinni Trapelus flavimaculatus.

Rúmlega 30 skriðdýrategundir finnast í Katar. Eðlur eru langalgengastar eða 21 tegund, þar af níu tegundir gekkóa (Gekkonidae), tvær tegundir skinka (Scincidae) og fjórar tegundir af ættinni Lacertidae. Aðrar tegundir eru aðallega snákar og svo að minnsta kosti þrjár tegundir skjaldbaka.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

5.12.2022

Spyrjandi

Halldór Atli

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um dýralífið í Katar?“ Vísindavefurinn, 5. desember 2022. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84349.

Jón Már Halldórsson. (2022, 5. desember). Hvað getur þú sagt mér um dýralífið í Katar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84349

Jón Már Halldórsson. „Hvað getur þú sagt mér um dýralífið í Katar?“ Vísindavefurinn. 5. des. 2022. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84349>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um dýralífið í Katar?
Katar (e. Qatar) er ríki á Katarskaga við suðvestanverðan Persaflóa en skagi þessi gengur norður úr austurströnd Arabíuskaga. Landið er rúmlega 11,5 þúsund ferkílómetrar að stærð eða um 1/9 af flatarmáli Íslands og að stórum hluta eyðimörk. Yfir sumartímann getur hitinn þar farið allt upp í 50ºC yfir heitasta tíma dagsins en svalara er á öðrum árstímum. Úrkoma er mjög lítil, innan við 75 mm á ári, og hún fellur að mestu yfir vetrartímann. Eðlilega markast dýralífið í landinu af þessum sérstöku aðstæðum.

Alls finnast um eða yfir 20 tegundir landspendýra í Katar auk þess sem sækýr (Dugong dugon) lifa við strendur landsins. Í reynd er þar ein mesta samsöfnun sækúa í Persaflóanum eða um nokkur hundruð dýr sem geta haldið til í hjörðum á grunnsævinu við strendur landsins.

Stafantílópan (Oryx leucoryx) er þjóðardýr Katar.

Stærstu þurrlendisspendýrin í Katar eru stafantílópan (Oryx leucoryx) og arabíska gasellan (Gazella marica). Þessar tegundir eru alfriðaðar í landinu sem og annars staðar á Arabíuskaganum. Segja má að stafantílópan sé einkennisdýr Arabíuskagans, svo sterkt er hún tengd ímynd náttúru skagans. Raunar er hún þjóðardýr nokkurra lands, þeirra á meðal Katar. Saga stafantílópunnar er nokkuð áhugaverð því eftir margar ára hnignun stofnsins, mikið til vegna veiða, var síðasta villta dýrið fellt árið 1972 í landinu Óman. Sem betur fer hafði verið sett af stað verkefni áratug áður sem gekk út á að fjölga dýrum í haldi manna og bjarga þannig tegundinni. Fyrstu ræktuðu dýrunum var sleppt í Óman 1982 og síðan bættust smám saman fleiri lönd við. Í dag er talið að villti stofninn sé allt að 1.200 dýr í nokkrum löndum, þar á meðal í Katar þar sem þau lifa á afmörkuðum verndarsvæðum.

Flestar spendýrategundir í landinu tilheyra ættbálki nagdýra (Rodentia), líklega níu talsins. Þar af eru þrjár innfluttar tegundir, húsamús (Mus musculus) og rottutegundirnar tvær sem hafa alheimsútbreiðslu, það er svartrotta (Rattus rattus) og brúnrotta (Rattus norvegicus) en þetta eru einmitt tegundir sem einnig hafa borist hingað til lands.

Meðal annarra spendýra má til dæmis nefna tvær tegundir refa (Vulpes vulpes og Vulpes rueppellii), gullsjakala (Canis aureus), hunangsgreifingja (Mellivora capensis) og tvær tegundir leðurblaka (Otonycteris hemprichi og Asellia tridens).

Alls hafa sést yfir 350 tegundir fugla í Katar en aðeins hluti þeirra lifir þar allt árið, margar tegundir hafa þar aðeins stutta viðdvöl á vorin og haustin þegar þær eru að fara á milli varpstöðva og vetrarstöðva. Spörfuglar eru algengastir þessara farfugla, svo sem ýmsar tegundir af svölum og svölungum, auk fleiri tegunda. Ef farið er í fuglaskoðun í þurra eyðimörkina að sumarlagi má meðal annars sjá þar nokkrar tegundir lævirkja. Fuglar sem finnast við strendur landsins eru meðal annars nokkrar mávategundir, þernutegundir og tildrur, svo dæmi séu nefnd.

Strútar finnast inn til landsins og þá á verndarsvæðinu Ras Abroug. Þetta er að vísu ekki sú strútategund sem upprunalega fannst á Arabíuskaganum, heldur norður-afríski strúturinn (Struthio camelus camelus). Áður fyrr lifði sýrlenski strúturinn (Struthio camelus syriacus) í Miðausturlöndum en er nú aldauða. Hann hvarf úr fánu Katar fyrir 1950 en á ofanverðri síðustu öld voru norður-afrískir strútar fluttir til landsins og hefur þeim vegnað ágætlega.

Eðla af tegundinni Trapelus flavimaculatus.

Rúmlega 30 skriðdýrategundir finnast í Katar. Eðlur eru langalgengastar eða 21 tegund, þar af níu tegundir gekkóa (Gekkonidae), tvær tegundir skinka (Scincidae) og fjórar tegundir af ættinni Lacertidae. Aðrar tegundir eru aðallega snákar og svo að minnsta kosti þrjár tegundir skjaldbaka.

Heimildir og mynd:...