Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessi spurning er nokkuð víðfeðm en hér er gert ráð fyrir að spyrjandi sé að falast eftir upplýsingum um dýr sem finnast á þurrlendi Suðurskautslandsins. Hér verður því ekki fjallað um dýralíf í grunnsævinu umhverfis Suðurskautslandið og heldur ekki sagt frá dýralífinu á eyjum umhverfis þetta mikla landflæmi.
Það kemur víst fæstum á óvart að dýralíf á Suðurskautslandinu er afar fábrotið enda er um 98% af landmassanum þakinn ís og úrkoma afar lítil. Dýr þurfa því að aðlagast ísilögðum heimi, þurrki og miklum kuldum, en lægsta hitastig sem mælst hefur á jörðinni er einmitt á Suðurskautslandinu, við Vostok-rannsóknastöðina í rúmlega 3.800 metra hæð.
Strönd Suðurskautslandsins er ekki gróðurrík en þar má þó finna eitthvað fuglalíf og hreifadýr. Mörgæsir eru eflaust langkunnustu dýr Suðurskautslandsins mörgæsir en af þeim 17 tegundum mörgæsa sem finnast í heiminum, verpa sex á Suðurskautslandinu. Það eru adeliemörgæsin (Pygoscelis adeliae), hökubandsmörgæs (Pygoscelis antarctica), keisaramörgæs (Aptenodytes forsteri), klappamörgæs (Eudyptes chrysolophus), klettamörgæs (Eudyptes chrysocome) og konungsmörgæs (Aptenodytes patagonicus). Þess má geta að keisaramörgæsin er einlend (e. endemic), það er hún lifir aðeins á þessu tiltekna svæði og hvergi annars staðar. Aðrar mörgæsategundir verpa norðar, meðal annars í Suður-Ameríku, Eyjaálfu, Afríku eða á hinum mörgu eyjum Suðurhafanna.
Keisaramörgæsin lifir aðeins á Suðurskautslandinu.
Af fleygum fuglum sem verpa á Suðurskautslandinu er suðurhafsskúmurinn (Stercorarius maccormicki) kunnastur. Hann verpir í sand- og steinfjörum landsins í nóvember til desember en fer norður í Kyrrahaf þegar veturinn gengur í garð. Suðurhafsskúmur hefur sést á Suðurpólnum, einn sárafárra dýra.
Sem dæmi um aðra varpfugla má nefna hafsvölu (Oceanites oceanicus) og snædrúða (Pagodroma nivea). Sædrúði er reyndar sú tegund sem hefur hvað suðlægasta útbreiðslu á jörðinni. Hann verpir í misstórum byggðum í hömrum við ströndina auk þess sem nokkrar snædrúðabyggðir þekkjast inn til landsins. Þeir sem eru svo lánsamir að fara til Suðurskautslandsins geta rekið augun í snædrúða sitja í rólegheitum á ísjökum undan ströndinni. Þá má nefna ísdrúða (Thalassoica antarctica) sem verpir aðallega við Weddel-haf og Ross-haf. Hann er einnig algengur varpfugl á Suðurhafseyjunum. Þessi svala er nokkuð stærri en snædrúðinn og er bæði svört og hvít að lit. Hann lifir aðallega á smokkfiskum og svo undirstöðufæðu Suðurhafanna, suðurhafsátunni.
Pardusselurinn kæpir á ísnum og er topprándýr á Suðurskautslandinu.
Engin villt landspendýr finnast á Suðurskautslandinu en í hafinu umhverfis finnast sex tegundir hreifadýra. Stærst þeirra er sæfíllinn (Mirounga leonina) sem finnst aðallega á eyjum við Suðurskautslandið og telst því vart til þeirra dýra sem finnast á Suðurskautslandinu sjálfu. Aðrar tegundir sem finnast og kæpa á lagnaðarísnum undan strönd landsins eru loðselur (Arctocephalus gazella), sem getur myndað stór sambú (e. colony) á ströndinni, weddelselurinn (Leptonychotes weddellii) og átuselurinn (Lobodon carcinophagus). Sá síðastnefndi myndar risastór látur og er algengur við lagnaðarísinn og á fastalandinu. Pardusselurinn (Hydrurga leptonyx) kæpir einnig á ísnum en finnst yfirleitt stakur við leit að bráð á grunnsævinu og ísnum. Pardusselurinn sækir fyrst og fremst í minni seli og mörgæsir og er því topprándýr á þessum slóðum og stærsta kjötætan fyrir utan háhyrninga. Rossselur (Ommatophoca rossii) líkt og pardusselurinn, sést einnig afar sjaldan í stórum hópum.
Í samanburði við aðrar heimsálfur er fána hryggleysingja ósköp fábrotin á Suðurskautslandinu, aðeins 67 tegundir skordýra hafa fundist á landi og eru flestar tegundirnar smærri en 2 mm á lengd. Af áttfætlumaurum, sem eru af sömu ætt og köngulær, finnast nokkrar tegundir. Meðal annars er tegund nokkur sem er aðeins 0,3 mm á lengd og er suðlægasta dýr sem hefur fundist á jörðinni. Tegundir eins og oribatoud-mítill (Alaskozetes antarcitcus) og Cryptopygus antarcticus hafa fundist fyrir sunnan 85° suðlægrar breiddar. Þessar tegundir hafa aðlagast þeim mikla kulda sem þarna er með því að undirkæla líkamsvökva sinn án þess að hann frjósi, dýrin hafa einhvers konar frostlög (sem er glycerol) sem kemur í veg fyrir að milli- og innanfrumuvökvi frjósi en það yrði dýrunum bráður bani.
Myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr eru á Suðurskautslandinu?“ Vísindavefurinn, 23. júlí 2014, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66193.
Jón Már Halldórsson. (2014, 23. júlí). Hvaða dýr eru á Suðurskautslandinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66193
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr eru á Suðurskautslandinu?“ Vísindavefurinn. 23. júl. 2014. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66193>.