Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík
1944

Hvað getið þið sagt um einstaka vísindamenn sem voru uppi á árinu 1944?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Uppgötvanir, kenningar og niðurstöður í vísindum eru yfirleitt afrakstur vinnu sem á sér stað á margra ára og oft áratuga tímabili. Oftast er um að ræða samstarf margra sem byggir jafnframt á rannsóknum annarra vísindamanna. Hér er spurt um árið 1944 en svarið takmarkast þó ekki við vísindamenn sem unnu merk afrek aðeins þetta tiltekna ár heldur eru nefndir nokkrir vísindamenn sem sinntu vísindastörfum um miðjan fimmta áratuginn.

Umfjölluninni er alls ekki ætlað að vera tæmandi listi yfir merkustu vísindamenn fimmta áratugar 20. aldar en þess í stað verður reynt að spanna margar ólíkar greinar vísindanna. Ítarlegri umfjöllun um langflesta sem hér eru nefndir er að finna í öðrum svörum á Vísindavefnum.

Ef byrjað er heimspeki, sem er ein elsta fræðigreinin, má til að mynda nefna heimspekinginn Bertrand Russell (1872–1970). Hann var einn af frumkvöðlum rökgreiningarheimspekinnar og hafði mikil áhrif á rökfræði, málspeki, þekkingarfræði, frumspeki, hugspeki og vísindaheimspeki. Einnig má nefna Karl Popper (1902-1994) sem var einn af áhrifameiri heimspekingum 20. aldar, sérstaklega á sviði vísindaheimspeki. Hann setti meðal annars fram hugmyndir um hvernig greina mætti vísindi frá svokölluðum gervivísindum á grundvelli vísindalegrar aðferðafræði sem byggðist á hrekjanleika (falsifiability).

John Dewey (1859-1952) er einn áhrifamesti hugsuður Vesturlanda á sviði heimspeki menntunar. Árið 1944 voru allflest hans helstu rit þegar komin út en hann var enn virkur fræðimaður. Þegar litið er til Deweys sem heimspekings má einu gilda hvort áhuginn liggur á sviði heimspeki menntunar, vísindaheimspeki, frumspeki, þekkingarfræði, hagnýtrar rökfræði, fagurfræði eða siðfræði.

Tvær af meginundirstöðum nútíma eðlisfræði voru lagðar á fyrstu áratugum 20. aldar, skammtafræðin og afstæðiskenningin. Þeir vísindamenn sem þar lögðu mest af mörkum voru enn við störf árið 1944. Fyrstan má nefna Albert Einstein (1879-1955) höfund afstæðiskenningarinnar og einn þekktasta vísindamann 20. aldar. Á þessum tíma var nokkuð liðið frá því hann kom fram með kenningu sína og hann kominn á efri ár en sinnti þó enn vísindastörfum. Einnig má nefna fjóra eðlisfræðinga og Nóbelsverðlaunahafa sem allir eru taldir til helstu höfundar nútíma skammtafræði, Níels Bohr (1885-1962), Erwin Schrödinger (1887-1961), Werner Heisenberg (1901-1976) og Paul Dirac (1902-1984). Af öðrum eðlisfræðingum sem komu við sögu á 5. áratugnum má nefna Enrico Fermi (1901-1954) sem átti mikinn þátt í rannsóknum á kjarnorku og þróun fyrstu kjarnavopnanna og Lise Meitner (1878-1968) sem rannsakaði geislavirkni og var í hópnum sem uppgötvaði kjarnaklofnun árið 1938.

Þróun sýklalyfja er eitt merkasta framlag læknis- og lyfjafræði á 5. áratug síðustu aldar. Sir Alexander Fleming (1881-1955) hafði uppgötvað penisilínið árið 1928 en það vakti þá lítinn áhuga meðal fræðimanna. Í seinni heimsstyrjöldinni kviknaði áhugi manna aftur og tveir vísindamenn, Howard Florey (1898–1968) og Ernst Chain (1906-1979), tóku við og þróuðu efnið sem sýklalyf. Fleming var sleginn til riddara árið 1944 fyrir framlag sitt, og þeim Fleming, Florey og Chain voru veitt Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1945.

Linus Pauling (1901-1994) var afburðavísindamaður í fræðilegri efnafræði og lífefnafræði og einn af áhrifamestu vísindamönnum tuttugustu aldarinnar. Pauling skrifaði fjölda greina um eðli efnatengja og árið 1939 kom út bókin The Nature of the Chemical Bond sem er meðal áhrifamestu fræðirita sem hafa verið gefin út á því sviði. Pauling rannsakaði einnig byggingarform prótína og birti ásamt samstarfsfólki árið 1949 grein þar sem í fyrsta sinn tókst að sanna að sjúkdómur í mönnum væri af völdum afbrigðilegs prótíns.

Meðal þeirra hagfræðinga sem voru áberandi á fyrri hluta 20. aldar var Joseph Schumpeter (1883-1950). Hann er iðulega talinn einn af merkari hagfræðingum aldarinnar. Schumpeter kom víða við í rannsóknum sínum og skrifaði meðal annars um hagsveiflur og sögu hagfræðikenninga. Nú er hans oftast minnst fyrir framlag sitt til frumkvöðlafræða en skrif hans á þeim vettvangi hafa haft mikil áhrif undanfarna áratugi og ná þau langt út fyrir heim fræðanna.

Stærðfræðingurinn John von Neumann (1903-1957) var einn af frumkvöðlum svonefndrar leikjafræði. Árið 1944 gaf hann ásamt hagfræðingnum Oskar Morgenstern (1902-1977) út ritið Theory of Games and Economic Behavior sem skipti sköpum fyrir þróun leikjafræðinnar og varð meðal annars til þess að hagfræðingar tóku þessa fræðigrein upp á sína arma.

Tölvunarfræðin var að fæðast sem vísindagrein á seinni hluta fjórða áratugarins og á þeim fimmta og kom von Neumann þar talsvert við sögu. Hann þróaði meðal annars ýmsar grundvallarhugmyndir um uppbyggingu tölva. Annar þekktur og áhrifamikill vísindamaður á sviði tölvunarfræðinnar er Alan Turing (1912-1954). Hann lagði grunn að nokkrum mikilvægum hugtökum í fræðilegri tölvunarfræði og gervigreind, skilgreindi meðal annars hugtakið reiknanleiki og setti fram lýsingu á svokallaðri almennri Turing-vél.

Einn af merkustu jarðvísindamönnum 20. aldarinnar var Arthur Holmes (1890-1965). Hann er þekktastur fyrir fernt: Fyrir þátt sinn í að tímakvarða jarðsöguna, fyrir bókina The Age of the Earth (1913), fyrir að skýra fyrstur (um 1930) orsakir landreks og síðast en ekki síst fyrir afbragðs kennslubók sína Principles of Physical Geology sem út kom árið 1944. Sú bók var aðalkennslubók í jarðfræðikennslu í háskólum margra landa í aldarfjórðung.

Þó sjaldan sé vitnað til verka Margaret Mead (1901-1978) í dag má með sanni kalla hana eina af mæðrum mannfræðinnar. Hún var frumkvöðull í mannfræðilegum rannsóknum á barnæsku, uppeldisaðferðum, kynhlutverkum og áhrifum þeirra á samfélag og menningu. Þá var hún brautryðjandi í notkun ljósmynda og kvikmynda við söfnun gagna á vettvangi.

Einn þeirra vísindamanna tuttugustu aldar sem átti verulegan þátt í að móta heimsmynd okkar er bandaríski stjarnvísindamaðurinn Edwin Hubble (1889-1953). Hann sýndi fram á að alheimurinn er miklu stærri en menn höfðu áður talið og sýndi líka að heimurinn er stöðugt að þenjast út með ákveðnum hætti; vetrarbrautirnar fjarlægjast hver aðra með hraða sem er í beinu hlutfalli við fjarlægðina. Þessi uppgötvun var byrjunin á þeirri þróun sem leiddi síðar til kenningarinnar um Miklahvell.

Líffræðingurinn Rachel Carson (1907-1964) heyrði fyrst um skordýraeitrið DDT um miðjan fimmta áratuginn. Það var þó ekki fyrr en tæpum tveimur áratugum seinna sem bók hennar Raddir vorsins þagna kom út. Þar fjallað hún um áhrif efnisins á lífríkið. Sú bók átti stóran þátt í að vekja almenning til umhugsunar um áhrif mannsins á umhverfi sitt og um nauðsyn þess að stíga varlega til jarðar í inngripum mannsins í náttúruna.

Af þeim Íslendingum sem stóðu framarlega í sínu fagi um það leyti sem landið fékk sjálfstæði má til dæmis nefna Sigurð Nordal (1886-1974), Jón Helgason (1899-1986) og Einar Ólaf Sveinsson (1899-1984) sem allir voru afkastamiklir og virtir fræðimenn á sviði íslenskra fræða. Kristján Eldjárn (1916-1982), forleifafræðingur og síðar forseti Íslands, var í hópi brautryðjenda í íslenskum vísindum og stóð fyrir uppbyggingu fornleifafræðinnar sem vísindagreinar. Af sviði náttúruvísinda er hægt að nefna menn eins og líffræðinginn Árna Friðriksson (1898-1965) sem var brautryðjandi í rannsóknum á lífríki hafsins umhverfis Ísland, Björn Sigurðsson (1913-1959) var frumkvöðull veirurannsókna á Íslandi og Sigurður Þórarinsson (1912-1983) komst í fremstu röð eldfjallafræðinga, var einn frumkvöðla í jöklarannsóknum og lagði grunninn að nýrri fræðigrein, gjóskulagafræði.

Þeir vísindamenn sem hér hafa verið nefndir eru að sjálfsögðu aðeins örlítið brot af þeim fjölmörgu sem lögðu stund á vísindi og fræði fyrir og um miðja síðustu öld. Það kann að vekja athygli hversu fáar konur eru í þessum hópi en það endurspeglar því miður þá staðreynd að þær áttu erfitt með að hasla sér völl í vísindasamfélaginu á þessum árum.

Myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

30.10.2019

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „ Hvað getið þið sagt um einstaka vísindamenn sem voru uppi á árinu 1944? .“ Vísindavefurinn, 30. október 2019. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78060.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2019, 30. október). Hvað getið þið sagt um einstaka vísindamenn sem voru uppi á árinu 1944? . Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78060

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „ Hvað getið þið sagt um einstaka vísindamenn sem voru uppi á árinu 1944? .“ Vísindavefurinn. 30. okt. 2019. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78060>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt um einstaka vísindamenn sem voru uppi á árinu 1944?
Uppgötvanir, kenningar og niðurstöður í vísindum eru yfirleitt afrakstur vinnu sem á sér stað á margra ára og oft áratuga tímabili. Oftast er um að ræða samstarf margra sem byggir jafnframt á rannsóknum annarra vísindamanna. Hér er spurt um árið 1944 en svarið takmarkast þó ekki við vísindamenn sem unnu merk afrek aðeins þetta tiltekna ár heldur eru nefndir nokkrir vísindamenn sem sinntu vísindastörfum um miðjan fimmta áratuginn.

Umfjölluninni er alls ekki ætlað að vera tæmandi listi yfir merkustu vísindamenn fimmta áratugar 20. aldar en þess í stað verður reynt að spanna margar ólíkar greinar vísindanna. Ítarlegri umfjöllun um langflesta sem hér eru nefndir er að finna í öðrum svörum á Vísindavefnum.

Ef byrjað er heimspeki, sem er ein elsta fræðigreinin, má til að mynda nefna heimspekinginn Bertrand Russell (1872–1970). Hann var einn af frumkvöðlum rökgreiningarheimspekinnar og hafði mikil áhrif á rökfræði, málspeki, þekkingarfræði, frumspeki, hugspeki og vísindaheimspeki. Einnig má nefna Karl Popper (1902-1994) sem var einn af áhrifameiri heimspekingum 20. aldar, sérstaklega á sviði vísindaheimspeki. Hann setti meðal annars fram hugmyndir um hvernig greina mætti vísindi frá svokölluðum gervivísindum á grundvelli vísindalegrar aðferðafræði sem byggðist á hrekjanleika (falsifiability).

John Dewey (1859-1952) er einn áhrifamesti hugsuður Vesturlanda á sviði heimspeki menntunar. Árið 1944 voru allflest hans helstu rit þegar komin út en hann var enn virkur fræðimaður. Þegar litið er til Deweys sem heimspekings má einu gilda hvort áhuginn liggur á sviði heimspeki menntunar, vísindaheimspeki, frumspeki, þekkingarfræði, hagnýtrar rökfræði, fagurfræði eða siðfræði.

Tvær af meginundirstöðum nútíma eðlisfræði voru lagðar á fyrstu áratugum 20. aldar, skammtafræðin og afstæðiskenningin. Þeir vísindamenn sem þar lögðu mest af mörkum voru enn við störf árið 1944. Fyrstan má nefna Albert Einstein (1879-1955) höfund afstæðiskenningarinnar og einn þekktasta vísindamann 20. aldar. Á þessum tíma var nokkuð liðið frá því hann kom fram með kenningu sína og hann kominn á efri ár en sinnti þó enn vísindastörfum. Einnig má nefna fjóra eðlisfræðinga og Nóbelsverðlaunahafa sem allir eru taldir til helstu höfundar nútíma skammtafræði, Níels Bohr (1885-1962), Erwin Schrödinger (1887-1961), Werner Heisenberg (1901-1976) og Paul Dirac (1902-1984). Af öðrum eðlisfræðingum sem komu við sögu á 5. áratugnum má nefna Enrico Fermi (1901-1954) sem átti mikinn þátt í rannsóknum á kjarnorku og þróun fyrstu kjarnavopnanna og Lise Meitner (1878-1968) sem rannsakaði geislavirkni og var í hópnum sem uppgötvaði kjarnaklofnun árið 1938.

Þróun sýklalyfja er eitt merkasta framlag læknis- og lyfjafræði á 5. áratug síðustu aldar. Sir Alexander Fleming (1881-1955) hafði uppgötvað penisilínið árið 1928 en það vakti þá lítinn áhuga meðal fræðimanna. Í seinni heimsstyrjöldinni kviknaði áhugi manna aftur og tveir vísindamenn, Howard Florey (1898–1968) og Ernst Chain (1906-1979), tóku við og þróuðu efnið sem sýklalyf. Fleming var sleginn til riddara árið 1944 fyrir framlag sitt, og þeim Fleming, Florey og Chain voru veitt Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1945.

Linus Pauling (1901-1994) var afburðavísindamaður í fræðilegri efnafræði og lífefnafræði og einn af áhrifamestu vísindamönnum tuttugustu aldarinnar. Pauling skrifaði fjölda greina um eðli efnatengja og árið 1939 kom út bókin The Nature of the Chemical Bond sem er meðal áhrifamestu fræðirita sem hafa verið gefin út á því sviði. Pauling rannsakaði einnig byggingarform prótína og birti ásamt samstarfsfólki árið 1949 grein þar sem í fyrsta sinn tókst að sanna að sjúkdómur í mönnum væri af völdum afbrigðilegs prótíns.

Meðal þeirra hagfræðinga sem voru áberandi á fyrri hluta 20. aldar var Joseph Schumpeter (1883-1950). Hann er iðulega talinn einn af merkari hagfræðingum aldarinnar. Schumpeter kom víða við í rannsóknum sínum og skrifaði meðal annars um hagsveiflur og sögu hagfræðikenninga. Nú er hans oftast minnst fyrir framlag sitt til frumkvöðlafræða en skrif hans á þeim vettvangi hafa haft mikil áhrif undanfarna áratugi og ná þau langt út fyrir heim fræðanna.

Stærðfræðingurinn John von Neumann (1903-1957) var einn af frumkvöðlum svonefndrar leikjafræði. Árið 1944 gaf hann ásamt hagfræðingnum Oskar Morgenstern (1902-1977) út ritið Theory of Games and Economic Behavior sem skipti sköpum fyrir þróun leikjafræðinnar og varð meðal annars til þess að hagfræðingar tóku þessa fræðigrein upp á sína arma.

Tölvunarfræðin var að fæðast sem vísindagrein á seinni hluta fjórða áratugarins og á þeim fimmta og kom von Neumann þar talsvert við sögu. Hann þróaði meðal annars ýmsar grundvallarhugmyndir um uppbyggingu tölva. Annar þekktur og áhrifamikill vísindamaður á sviði tölvunarfræðinnar er Alan Turing (1912-1954). Hann lagði grunn að nokkrum mikilvægum hugtökum í fræðilegri tölvunarfræði og gervigreind, skilgreindi meðal annars hugtakið reiknanleiki og setti fram lýsingu á svokallaðri almennri Turing-vél.

Einn af merkustu jarðvísindamönnum 20. aldarinnar var Arthur Holmes (1890-1965). Hann er þekktastur fyrir fernt: Fyrir þátt sinn í að tímakvarða jarðsöguna, fyrir bókina The Age of the Earth (1913), fyrir að skýra fyrstur (um 1930) orsakir landreks og síðast en ekki síst fyrir afbragðs kennslubók sína Principles of Physical Geology sem út kom árið 1944. Sú bók var aðalkennslubók í jarðfræðikennslu í háskólum margra landa í aldarfjórðung.

Þó sjaldan sé vitnað til verka Margaret Mead (1901-1978) í dag má með sanni kalla hana eina af mæðrum mannfræðinnar. Hún var frumkvöðull í mannfræðilegum rannsóknum á barnæsku, uppeldisaðferðum, kynhlutverkum og áhrifum þeirra á samfélag og menningu. Þá var hún brautryðjandi í notkun ljósmynda og kvikmynda við söfnun gagna á vettvangi.

Einn þeirra vísindamanna tuttugustu aldar sem átti verulegan þátt í að móta heimsmynd okkar er bandaríski stjarnvísindamaðurinn Edwin Hubble (1889-1953). Hann sýndi fram á að alheimurinn er miklu stærri en menn höfðu áður talið og sýndi líka að heimurinn er stöðugt að þenjast út með ákveðnum hætti; vetrarbrautirnar fjarlægjast hver aðra með hraða sem er í beinu hlutfalli við fjarlægðina. Þessi uppgötvun var byrjunin á þeirri þróun sem leiddi síðar til kenningarinnar um Miklahvell.

Líffræðingurinn Rachel Carson (1907-1964) heyrði fyrst um skordýraeitrið DDT um miðjan fimmta áratuginn. Það var þó ekki fyrr en tæpum tveimur áratugum seinna sem bók hennar Raddir vorsins þagna kom út. Þar fjallað hún um áhrif efnisins á lífríkið. Sú bók átti stóran þátt í að vekja almenning til umhugsunar um áhrif mannsins á umhverfi sitt og um nauðsyn þess að stíga varlega til jarðar í inngripum mannsins í náttúruna.

Af þeim Íslendingum sem stóðu framarlega í sínu fagi um það leyti sem landið fékk sjálfstæði má til dæmis nefna Sigurð Nordal (1886-1974), Jón Helgason (1899-1986) og Einar Ólaf Sveinsson (1899-1984) sem allir voru afkastamiklir og virtir fræðimenn á sviði íslenskra fræða. Kristján Eldjárn (1916-1982), forleifafræðingur og síðar forseti Íslands, var í hópi brautryðjenda í íslenskum vísindum og stóð fyrir uppbyggingu fornleifafræðinnar sem vísindagreinar. Af sviði náttúruvísinda er hægt að nefna menn eins og líffræðinginn Árna Friðriksson (1898-1965) sem var brautryðjandi í rannsóknum á lífríki hafsins umhverfis Ísland, Björn Sigurðsson (1913-1959) var frumkvöðull veirurannsókna á Íslandi og Sigurður Þórarinsson (1912-1983) komst í fremstu röð eldfjallafræðinga, var einn frumkvöðla í jöklarannsóknum og lagði grunninn að nýrri fræðigrein, gjóskulagafræði.

Þeir vísindamenn sem hér hafa verið nefndir eru að sjálfsögðu aðeins örlítið brot af þeim fjölmörgu sem lögðu stund á vísindi og fræði fyrir og um miðja síðustu öld. Það kann að vekja athygli hversu fáar konur eru í þessum hópi en það endurspeglar því miður þá staðreynd að þær áttu erfitt með að hasla sér völl í vísindasamfélaginu á þessum árum.

Myndir:

...