Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:49 • Síðdegis: 18:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:55 • Síðdegis: 24:31 í Reykjavík

Hvaða bergtegundir finnast í Viðey og hvað getur jarðfræðin sagt um okkur um sögu eyjunnar?

Snæbjörn Guðmundsson

Viðey hefur verið sögustaður frá upphafi Íslandsbyggðar. Þar var klaustur reist á 13. öld og eyjan kom mikið við sögu á tímum siðaskiptanna. Rétt upp af núverandi bátalægi standa einar elstu byggingar landsins, Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja, byggðar upp úr miðri átjándu öld. Austast á eyjunni byggðist upp lítið sjávarþorp í byrjun tuttugustu aldar. En þótt byggðasaga Viðeyjar sé áhugaverð er jarðfræðin þó ekki síður merkileg og getur bætt miklu við ferð út í eyjuna að kunna örlítil skil á henni.

Viðey er reyndar vel gróin og það gerir jarðfræðiáhugafólki erfitt um vik að skoða jarðfræðina svo vel sé. Víða er þó hægt að komast í opin jarðlög. Sjávarklettar eru til að mynda yfirleitt opnir og sýnilegir og er gott að skoða jarðfræðina úr fjörunni en aðgengið er þó ekki alltaf gott. Uppi á sjálfri eyjunni standa holt og klettar hér og þar upp úr umhverfinu og með smá þekkingu er mögulegt að lesa jarðfræðina á þeim stöðum.

Í Viðey er eitt elsta berg höfuðborgarsvæðisins. Þar sem eyjan er nú var hluti virkrar megineldstöðvar fyrir um tveimur til þremur milljónum ára, ýmist kennd við Kjalarnes eða Viðey. Eldstöð þessi var virk í um eina milljón ára og var á sínum líftíma umfangsmikil en kjarni hennar er að mestu rofinn af ísaldarjöklum og nú kominn ýmist undir sjó eða yngri jarðlög. Á nokkrum stöðum má þó greina leifar eldstöðvarinnar á yfirborði, svo sem yst á Kjalarnesi, í Gufunesi og við Vatnagarða. Í Viðey sunnanverðri eru hins vegar mestu ummerkin og segja þau ásamt öðrum jarðlögum eyjarinnar mikla sögu um jarðfræði svæðisins og þróun þess.

Út frá landslagi má skipta Viðey í tvær eyjur, sem tengjast með sand- og malareiði. Stærri eyjan er nefnd Heimaey og hefur aðalbyggð Viðeyjar ætíð verið á þeim hluta en þar eru nú Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja. Nyrðri hluti Viðeyjar er nefndur Vesturey og einkennist landslag hennar af flötum mýrarflákum. Þar er yfirleitt óhægt um vik að komast að og skoða berggrunninn vegna gróðurs. Það er því hentugra að skoða jarðfræði Viðeyjar á stærri hluta hennar. Ef horft er framan á Viðey frá Sundahöfn blasa Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja við nokkurn veginn fyrir miðri eyju en neðan þeirra er bryggjan þar sem Viðeyjarferjan leggur að. Auðveldast er að skoða elsta berggrunn eyjunnar með því að ganga meðfram sjónum í sitt hvora átt frá bryggjunni. Ef gengið er í austur, eða til hægri ef horft er framan á eyjuna, má finna móberg og kubbaberg í sjávarklettunum ofan við fjöruna. Þessar bergtegundir myndast við hraða kólnun, iðullega í tengslum við vatn, svo sem undir jökli, í sjó eða stöðuvötnum.

Viðey séð til suðausturs. Í forgrunni sést minni hluti Viðeyjar, Vestuey, en hentugra er að skoða jarðfræði Viðeyjar á stærri hluta hennar, Heimaey.

Í tilfelli Viðeyjar hefur móbergs- og kubbabergsmyndunin verið tengd við forna öskjumyndun. Einhvern tímann á hinu virka skeiði Viðeyjareldstöðvarinnar hefur askja myndast í miðju eldstöðvarinnar, líkt og á sér stað í mörgum virkum eldstöðvum á Íslandi. Í öskjunni hefur stöðuvatn myndast, ekki ósvipað Öskjuvatni í Öskju norðan Vatnajökuls. Móbergið og kubbabergið sem nú má finna í sjávarklettum Viðeyjar hefur síðan myndast við eldgos í stöðuvatninu og eru þessar myndanir góð dæmi um það sem kallað er „öskjufylling“ í fornum megineldstöðvum. Með tíð og tíma hefur eldvirknin fyllt upp í öskjuna þar til hún hefur drukknað í yngri jarðlögum.

Eldvirkni í Viðeyjareldstöðinni lauk þó ekki þar. Eftir að móberg og hraun höfðu fyllt upp í öskjuna hélt eldstöðin áfram að gjósa á yfirborði en innskotavirkni var einnig til staðar djúpt ofan í jörðu. Innskotavirkni má lýsa þannig að kvika leitar upp til yfirborðs án þess þó að ná alla leið. Kvikan storknar því ofan í jörðunni og myndar innskot, sem geta tekið á sig margs konar myndir svo sem í formi bergganga eða berghleifa. Síðar getur rof grafið ofan af innskotunum og birtast þau þá á yfirborði. Í Viðey má víða sjá merki um innskotavirkni hinnar fornu megineldstöðvar en best er að skoða hana í klettum vestan og norðan við Viðeyjarstofu. Til að mynda má sjá forna þykka bergganga í Eiðishólum nyrst á Heimaey en Sjónarhóll vestan við stofuna er einnig að mestu úr fornu innskotabergi. Tilvalið er að kanna berggrunn Sjónarhóls með því að ganga meðfram ströndinni frá bryggjunni til vesturs.

Stærstur hluti Viðeyjar er hins vegar ekki hulinn bergi frá hinni horfnu Viðeyjareldstöð heldur miklu yngri eldstöðvum. Á síðari ævistigum Viðeyjareldstöðvarinnar og sérstaklega eftir að hún varð útkulnuð hófust roföflin handa við að grafa eldstöðina í sundur og voru jöklar ísaldar atkvæðamestir í þeim greftri. Til að lesendur geti gert sér í hugarlund hvert umfang ísaldarrofsins er þá hefur yfirborð landsins þar sem Viðey stendur nú vart verið lægra en sem svarar efstu jarðlögum Esjunnar þegar það lá hvað hæst fyrir um einni til tveimur milljónum ára. Roföflin hafa því sorfið niður um 1000 metra af jarðlögum á höfuðborgarsvæðinu norðanverðu en lítil eldvirkni hefur verið á þeim tíma á svæðinu enda hafði það þá þegar rekið út af hinu virka gos- og rekbelti.

Eftir að roföflin höfðu dundað sér í þónokkurn tíma við að grafa út landið höfðu dalir myndast víðast hvar í berggrunninn. Á síðari hlýskeiðum ísaldar voru þessir útgröfnu dalir tómir og flæddi þá út um þá hraun frá eldstöðvum austar í landinu. Þessi hraun þekja nú mismunandi hluta höfuðborgarsvæðisins og nágrennis þess. Af þeim er eitt hraun þykkast og hefur það verið nefnt Reykjavíkurgrágrýtið, þar sem það þekur stóran hluta borgarlandsins, og meðal annars stærstan hluta Viðeyjar. Aldur þess er ekki þekktur en það er þó ekki talið vera yngra en frá síðasta hlýskeiði fyrir um 130 þúsund árum. Hraungosið sem myndaði Reykjavíkurgrágrýtið hefur verið gríðarmikið en jarðfræðingar eru ekki sammála um hvaðan það rann. Ýmsar eldstöðvar hafa verið nefndar í því samhengi, svo sem Mosfellsheiði og Lyklafell en líklegast eru upptökin í fleiri en einni eldstöð og grágrýtið því í raun myndað í meira en einu stöku gosi.

Horft framan á Viðey frá Sundahöfn en þar blasa Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja við en neðan þeirra er bryggjan þar sem Viðeyjarferjan leggur að. Auðveldast er að skoða elsta berggrunn eyjunnar með því að ganga meðfram sjónum í sitt hvora átt frá bryggjunni.

Þegar Reykjavíkurgrágrýtið er skoðað í Viðey segir það okkur allmikið um jarðsögu eyjarinnar og hinn eilífa framgang rofaflanna. Sú staðreynd að hraunlagið þekur bæði berggrunn Reykjavíkur sem og Viðeyjar sýnir greinilega að Viðey hefur ekki verið eyja þegar hraunið rann. Rannsóknir á eldri jarðlögum bendir þó til að þarna hafi sjávarströndin ekki verið fjarri og sums staðar benda ummerki til þess að Reykjavíkurgrágrýtið hafi runnið út í sjó. Roföflin hafa þó greinilega grafið Viðeyjarsund eftir að Reykjavíkurgrágrýtið rann og ef til vill hafa þau í leiðinni svipt grágrýtinu ofan af syðri hluta eyjunnar, sem án efa hefur að einhverju leyti verið á kafi í hrauni.

Hvað sem slíkum vangaveltum líður þá er gaman að bera saman þessar mismunandi berggerðir í Viðey og hugsa um jarðsöguna í leiðinni. Best er að skoða Reykjavíkurgrágrýtið í holtunum á eyjunni norðanverðri sem og í sjávarklettunum þeim megin. Víða er hraunlagið stuðlað en stuðlarnir eru yfirleitt stórir um sig og bendir það til þess að hraunlagið hafi verið töluvert þykkt þegar það rann og kólnað hægt.

Jarðfræði Viðeyjar er stórmerkileg en þar má á litlum bletti finna nokkra af stærstu köflunum í jarðsögu höfuðborgarsvæðisins. Þótt jarðfræðin sé vart mjög fjölbreytt þá er eyjan einn besti staðurinn á Suðvesturhorninu til að átta sig á framvindu jarðfræðinnar bæði í tíma og rúmi. Innan við fimmtán kílómetra til suðurs liggur núverandi rek- og gosbelti með sín fersku nútímahraun á Reykjanesskaganum og ef horft er til austurs yfir sundin og Grafarvoginn glittir bak við Úlfarsfellið í næstu megineldstöð við höfuðborgarsvæðið, Hengilinn. Í norðri má svo líta Esjuna, sem hlóðst meðal annars upp fyrir tilstilli Viðeyjareldstöðvarinnar og hefur á einhvern hátt staðist tímans tönn þótt eldstöðin sjálf sé nánast jöfnuð við jörðu.

Þótt Viðey sé nú friðsæl og fátt virðist geta haggað henni þar sem hún stendur við Sundin þá er það í raun aðeins frosið augnablik í jarðsögunni. Fortíðin liggur langt að baki með sinni miklu eldvirkni og upphleðslu en framtíðin ber lítið í skauti sér annað en rof og eyðileggingu. Það er erfitt að segja til um hvenær Viðey muni hverfa í sæ en þau örlög eru samt sem áður óumflýjanleg. Hvað ef við hefðum komið til Íslands einu ísaldarskeiði síðar, hefðum við þá kannski aldrei kynnst Viðey?

Heimildir:
  • Árni Hjartarson. 1980. Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík og nágrenni. Náttúrufræðingurinn 50 (2), 108-117.
  • Árni Hjartarson. 1992. Kleppur-Gufunes. Þrjú jarðlagasnið og kort. Orkustofnun, Reykjavík.
  • Haukur Jóhannesson, Kristbjörn Egilsson og Ævar Petersen. 1988. Náttúrufar Viðeyjar. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.
  • Ingvar Birgir Friðleifsson. 1985. Jarðsaga Esju og nágrennis. Í Þættir um nágrenni Reykjavíkur. Ferðafélag Íslands, Reykjavík, bls. 141-172.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Upprunalega spurningin var: Hvaða bergtegundir og hvernig jarðvegur er í Viðey?

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

12.4.2017

Spyrjandi

Sóley Lilja Brynjarsdóttir

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvaða bergtegundir finnast í Viðey og hvað getur jarðfræðin sagt um okkur um sögu eyjunnar?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2017. Sótt 21. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=16189.

Snæbjörn Guðmundsson. (2017, 12. apríl). Hvaða bergtegundir finnast í Viðey og hvað getur jarðfræðin sagt um okkur um sögu eyjunnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=16189

Snæbjörn Guðmundsson. „Hvaða bergtegundir finnast í Viðey og hvað getur jarðfræðin sagt um okkur um sögu eyjunnar?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2017. Vefsíða. 21. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=16189>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða bergtegundir finnast í Viðey og hvað getur jarðfræðin sagt um okkur um sögu eyjunnar?
Viðey hefur verið sögustaður frá upphafi Íslandsbyggðar. Þar var klaustur reist á 13. öld og eyjan kom mikið við sögu á tímum siðaskiptanna. Rétt upp af núverandi bátalægi standa einar elstu byggingar landsins, Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja, byggðar upp úr miðri átjándu öld. Austast á eyjunni byggðist upp lítið sjávarþorp í byrjun tuttugustu aldar. En þótt byggðasaga Viðeyjar sé áhugaverð er jarðfræðin þó ekki síður merkileg og getur bætt miklu við ferð út í eyjuna að kunna örlítil skil á henni.

Viðey er reyndar vel gróin og það gerir jarðfræðiáhugafólki erfitt um vik að skoða jarðfræðina svo vel sé. Víða er þó hægt að komast í opin jarðlög. Sjávarklettar eru til að mynda yfirleitt opnir og sýnilegir og er gott að skoða jarðfræðina úr fjörunni en aðgengið er þó ekki alltaf gott. Uppi á sjálfri eyjunni standa holt og klettar hér og þar upp úr umhverfinu og með smá þekkingu er mögulegt að lesa jarðfræðina á þeim stöðum.

Í Viðey er eitt elsta berg höfuðborgarsvæðisins. Þar sem eyjan er nú var hluti virkrar megineldstöðvar fyrir um tveimur til þremur milljónum ára, ýmist kennd við Kjalarnes eða Viðey. Eldstöð þessi var virk í um eina milljón ára og var á sínum líftíma umfangsmikil en kjarni hennar er að mestu rofinn af ísaldarjöklum og nú kominn ýmist undir sjó eða yngri jarðlög. Á nokkrum stöðum má þó greina leifar eldstöðvarinnar á yfirborði, svo sem yst á Kjalarnesi, í Gufunesi og við Vatnagarða. Í Viðey sunnanverðri eru hins vegar mestu ummerkin og segja þau ásamt öðrum jarðlögum eyjarinnar mikla sögu um jarðfræði svæðisins og þróun þess.

Út frá landslagi má skipta Viðey í tvær eyjur, sem tengjast með sand- og malareiði. Stærri eyjan er nefnd Heimaey og hefur aðalbyggð Viðeyjar ætíð verið á þeim hluta en þar eru nú Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja. Nyrðri hluti Viðeyjar er nefndur Vesturey og einkennist landslag hennar af flötum mýrarflákum. Þar er yfirleitt óhægt um vik að komast að og skoða berggrunninn vegna gróðurs. Það er því hentugra að skoða jarðfræði Viðeyjar á stærri hluta hennar. Ef horft er framan á Viðey frá Sundahöfn blasa Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja við nokkurn veginn fyrir miðri eyju en neðan þeirra er bryggjan þar sem Viðeyjarferjan leggur að. Auðveldast er að skoða elsta berggrunn eyjunnar með því að ganga meðfram sjónum í sitt hvora átt frá bryggjunni. Ef gengið er í austur, eða til hægri ef horft er framan á eyjuna, má finna móberg og kubbaberg í sjávarklettunum ofan við fjöruna. Þessar bergtegundir myndast við hraða kólnun, iðullega í tengslum við vatn, svo sem undir jökli, í sjó eða stöðuvötnum.

Viðey séð til suðausturs. Í forgrunni sést minni hluti Viðeyjar, Vestuey, en hentugra er að skoða jarðfræði Viðeyjar á stærri hluta hennar, Heimaey.

Í tilfelli Viðeyjar hefur móbergs- og kubbabergsmyndunin verið tengd við forna öskjumyndun. Einhvern tímann á hinu virka skeiði Viðeyjareldstöðvarinnar hefur askja myndast í miðju eldstöðvarinnar, líkt og á sér stað í mörgum virkum eldstöðvum á Íslandi. Í öskjunni hefur stöðuvatn myndast, ekki ósvipað Öskjuvatni í Öskju norðan Vatnajökuls. Móbergið og kubbabergið sem nú má finna í sjávarklettum Viðeyjar hefur síðan myndast við eldgos í stöðuvatninu og eru þessar myndanir góð dæmi um það sem kallað er „öskjufylling“ í fornum megineldstöðvum. Með tíð og tíma hefur eldvirknin fyllt upp í öskjuna þar til hún hefur drukknað í yngri jarðlögum.

Eldvirkni í Viðeyjareldstöðinni lauk þó ekki þar. Eftir að móberg og hraun höfðu fyllt upp í öskjuna hélt eldstöðin áfram að gjósa á yfirborði en innskotavirkni var einnig til staðar djúpt ofan í jörðu. Innskotavirkni má lýsa þannig að kvika leitar upp til yfirborðs án þess þó að ná alla leið. Kvikan storknar því ofan í jörðunni og myndar innskot, sem geta tekið á sig margs konar myndir svo sem í formi bergganga eða berghleifa. Síðar getur rof grafið ofan af innskotunum og birtast þau þá á yfirborði. Í Viðey má víða sjá merki um innskotavirkni hinnar fornu megineldstöðvar en best er að skoða hana í klettum vestan og norðan við Viðeyjarstofu. Til að mynda má sjá forna þykka bergganga í Eiðishólum nyrst á Heimaey en Sjónarhóll vestan við stofuna er einnig að mestu úr fornu innskotabergi. Tilvalið er að kanna berggrunn Sjónarhóls með því að ganga meðfram ströndinni frá bryggjunni til vesturs.

Stærstur hluti Viðeyjar er hins vegar ekki hulinn bergi frá hinni horfnu Viðeyjareldstöð heldur miklu yngri eldstöðvum. Á síðari ævistigum Viðeyjareldstöðvarinnar og sérstaklega eftir að hún varð útkulnuð hófust roföflin handa við að grafa eldstöðina í sundur og voru jöklar ísaldar atkvæðamestir í þeim greftri. Til að lesendur geti gert sér í hugarlund hvert umfang ísaldarrofsins er þá hefur yfirborð landsins þar sem Viðey stendur nú vart verið lægra en sem svarar efstu jarðlögum Esjunnar þegar það lá hvað hæst fyrir um einni til tveimur milljónum ára. Roföflin hafa því sorfið niður um 1000 metra af jarðlögum á höfuðborgarsvæðinu norðanverðu en lítil eldvirkni hefur verið á þeim tíma á svæðinu enda hafði það þá þegar rekið út af hinu virka gos- og rekbelti.

Eftir að roföflin höfðu dundað sér í þónokkurn tíma við að grafa út landið höfðu dalir myndast víðast hvar í berggrunninn. Á síðari hlýskeiðum ísaldar voru þessir útgröfnu dalir tómir og flæddi þá út um þá hraun frá eldstöðvum austar í landinu. Þessi hraun þekja nú mismunandi hluta höfuðborgarsvæðisins og nágrennis þess. Af þeim er eitt hraun þykkast og hefur það verið nefnt Reykjavíkurgrágrýtið, þar sem það þekur stóran hluta borgarlandsins, og meðal annars stærstan hluta Viðeyjar. Aldur þess er ekki þekktur en það er þó ekki talið vera yngra en frá síðasta hlýskeiði fyrir um 130 þúsund árum. Hraungosið sem myndaði Reykjavíkurgrágrýtið hefur verið gríðarmikið en jarðfræðingar eru ekki sammála um hvaðan það rann. Ýmsar eldstöðvar hafa verið nefndar í því samhengi, svo sem Mosfellsheiði og Lyklafell en líklegast eru upptökin í fleiri en einni eldstöð og grágrýtið því í raun myndað í meira en einu stöku gosi.

Horft framan á Viðey frá Sundahöfn en þar blasa Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja við en neðan þeirra er bryggjan þar sem Viðeyjarferjan leggur að. Auðveldast er að skoða elsta berggrunn eyjunnar með því að ganga meðfram sjónum í sitt hvora átt frá bryggjunni.

Þegar Reykjavíkurgrágrýtið er skoðað í Viðey segir það okkur allmikið um jarðsögu eyjarinnar og hinn eilífa framgang rofaflanna. Sú staðreynd að hraunlagið þekur bæði berggrunn Reykjavíkur sem og Viðeyjar sýnir greinilega að Viðey hefur ekki verið eyja þegar hraunið rann. Rannsóknir á eldri jarðlögum bendir þó til að þarna hafi sjávarströndin ekki verið fjarri og sums staðar benda ummerki til þess að Reykjavíkurgrágrýtið hafi runnið út í sjó. Roföflin hafa þó greinilega grafið Viðeyjarsund eftir að Reykjavíkurgrágrýtið rann og ef til vill hafa þau í leiðinni svipt grágrýtinu ofan af syðri hluta eyjunnar, sem án efa hefur að einhverju leyti verið á kafi í hrauni.

Hvað sem slíkum vangaveltum líður þá er gaman að bera saman þessar mismunandi berggerðir í Viðey og hugsa um jarðsöguna í leiðinni. Best er að skoða Reykjavíkurgrágrýtið í holtunum á eyjunni norðanverðri sem og í sjávarklettunum þeim megin. Víða er hraunlagið stuðlað en stuðlarnir eru yfirleitt stórir um sig og bendir það til þess að hraunlagið hafi verið töluvert þykkt þegar það rann og kólnað hægt.

Jarðfræði Viðeyjar er stórmerkileg en þar má á litlum bletti finna nokkra af stærstu köflunum í jarðsögu höfuðborgarsvæðisins. Þótt jarðfræðin sé vart mjög fjölbreytt þá er eyjan einn besti staðurinn á Suðvesturhorninu til að átta sig á framvindu jarðfræðinnar bæði í tíma og rúmi. Innan við fimmtán kílómetra til suðurs liggur núverandi rek- og gosbelti með sín fersku nútímahraun á Reykjanesskaganum og ef horft er til austurs yfir sundin og Grafarvoginn glittir bak við Úlfarsfellið í næstu megineldstöð við höfuðborgarsvæðið, Hengilinn. Í norðri má svo líta Esjuna, sem hlóðst meðal annars upp fyrir tilstilli Viðeyjareldstöðvarinnar og hefur á einhvern hátt staðist tímans tönn þótt eldstöðin sjálf sé nánast jöfnuð við jörðu.

Þótt Viðey sé nú friðsæl og fátt virðist geta haggað henni þar sem hún stendur við Sundin þá er það í raun aðeins frosið augnablik í jarðsögunni. Fortíðin liggur langt að baki með sinni miklu eldvirkni og upphleðslu en framtíðin ber lítið í skauti sér annað en rof og eyðileggingu. Það er erfitt að segja til um hvenær Viðey muni hverfa í sæ en þau örlög eru samt sem áður óumflýjanleg. Hvað ef við hefðum komið til Íslands einu ísaldarskeiði síðar, hefðum við þá kannski aldrei kynnst Viðey?

Heimildir:
  • Árni Hjartarson. 1980. Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík og nágrenni. Náttúrufræðingurinn 50 (2), 108-117.
  • Árni Hjartarson. 1992. Kleppur-Gufunes. Þrjú jarðlagasnið og kort. Orkustofnun, Reykjavík.
  • Haukur Jóhannesson, Kristbjörn Egilsson og Ævar Petersen. 1988. Náttúrufar Viðeyjar. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.
  • Ingvar Birgir Friðleifsson. 1985. Jarðsaga Esju og nágrennis. Í Þættir um nágrenni Reykjavíkur. Ferðafélag Íslands, Reykjavík, bls. 141-172.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Upprunalega spurningin var: Hvaða bergtegundir og hvernig jarðvegur er í Viðey?...