Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Thomas Henry Huxley fæddist 4. maí 1825 í Ealing, sem nú er úthverfi Lundúna. Þar var faðir hans stærðfræðikennari, en missti vinnuna þegar skólanum var lokað, og Huxley-fjölskyldan fluttist til smábæjar í Middlesex, norðan við höfuðborgina. Bágborin kjör foreldranna urðu til þess að Thomas, sem var næstyngstur átta systkina, varð að hætta í skóla tíu ára, að loknu tveggja ára námi. Lengri varð formleg skólaganga hans ekki, en hann lagði hart að sér við sjálfsnám og varð með árunum einn lærðasti og alhliða fróðasti maður Bretlands. Thomas Huxley sökkti sér niður í fræðirit um sagnfræði, heimspeki og náttúrufræði. Án kennara náði hann slíku valdi á þýsku að Charles Darwin (1809-1882) fékk hann síðar til að þýða vísindalegt efni úr þeirri tungu. Hann vanrækti ekki heldur klassísku málin, las latínu fyrirhafnarlítið og réði nógu vel við grísku til að lesa Aristóteles (384-322 f.Kr) á frummálinu.
Thomas Henry Huxley (1825-1895).
Á fullorðinsárum varð Huxley sérfróður um líffæragerð dýra, fyrst hryggleysingja en síðar einnig hryggdýra. Hann var drátthagur og teiknaði sjálfur myndir í mörg fræðirit sín. Þegar hann dróst inn í kappræður og ritdeilur um trú og vísindi stóðu fáir guðfræðingar honum á sporði í eigin fræðum. ‒ Þótt Huxley lenti oft upp á kant við heittrúarmenn var hann ekki trúleysingi. Hann lýsti viðhorfi sínu með orði, sem hann sjálfur samdi, Agnosticism, sem útleggst efahyggja; þar sem hann kvaðst ekki draga ályktanir um það sem verði ekki sannað og sé ekki sannanlegt.
Á unglingsárum var Thomas Huxley um skamma hríð lærlingur hjá nokkrum læknum. Fjórtán ára vann hann silfurmedalíu í árlegri keppni lyfsala, sem varð til þess að hann fékk heimild og styrk til að stunda nám við Charing Cross-spítalann. Þar birti hann sína fyrstu fræðiritgerð, um áður óþekkt frumulag inni í hársrót, sem síðan er eftir honum nefnt Huxleys-lag. Leiðbeinandi Huxleys, Thomas Wharton Jones, skoskur prófessor í augnlækningum, greiddi götu þessa efnilega unga manns til náms við læknadeild Lundúnaháskóla, þar sem hann lauk fyrrihlutaprófi í læknisfræði, með gullmedalíu í líffæra- og lífeðlisfræði.1 Huxley stóð þá á tvítugu og hafði hvorki aldur né menntun til að verða læknir. En hvorttveggja dugði til að lækna sjóliða, og Huxley var að vanda félítill, svo hann sótti um og fékk inngöngu í Konunglega breska flotann.
Huxley var skráður aðstoðarlæknir á HMS (Skip Hennar Hátignar2) Rattlesnake, sem verið var að búa í leiðangur til vísindarannsókna og sjómælinga í höfunum kringum Nýju-Gíneu og Ástralíu. Skipið sigldi frá Englandi 3. desember 1846, og Huxley tók brátt til við að rannsaka hrygglaus sjávardýr. Hann sendi jafnharðan skýrslur og gögn til Englands, þar sem lærifaðir hans, Edward Forbes (1815-1854) prófessor, þekktur sjólíffræðingur, tók við þeim og bjó til prentunar. ‒ Í Rattlesnake-leiðangrinum rannsakaði Huxley einkum holdýr af marglyttukyni, sem hann gaf safnheitið Hydrozoa, er síðan loðir við þessi dýr. Auk þess fékkst hann við ýmis önnur sjávardýr, þeim óskyld, og gat fundið sumum, sem verið höfðu eldri og reyndari dýrafræðingum ráðgáta, stað í viðteknu flokkunarkerfi hryggleysingja.
HMS Rattlesnake eftir Oswald Brierly en hann var listamaður skipsins.
Þegar Huxley sneri til Englands á HMS Rattlesnake árið 1850 var hann orðinn viðurkenndur vísindamaður, og ári síðar var hann kjörinn félagi í Konunglega vísindafélaginu (Royal Society), aðeins 26 ára. Þótt Huxley væri ekki kallaður til frekari starfa á herskipum, lét flotastjórnin hann um sinn halda titli aðstoðarlæknis, svo hann hefði áfram aðgang að þeim gögnum sem hann hafði safnað í leiðangrinum. ‒ Hann sagði stöðu sinni í flotanum lausri árið 1854 fyrir stöðu prófessors í náttúrufræði við Konunglega Námaskólann (Royal School of Mines), og brátt hlóðust á hann fleiri vegsemdir ‒ prófessorsstöður við háskóla og vísindastofnanir; hann varð forseti Hollvinafélags breskra vísinda (The British Association for the Advancement of Science), síðan forseti Konunglega vísindafélagsins, fiskimálastjóri (Inspector of Fisheries) og að síðustu forseti Samtaka sjávarlíffræðinga. Er þó ekki allt talið; til dæmis voru Huxley veitt ýmis heiðursmerki, þar á meðal tók hann, ásamt löndum sínum Hooker (1817-1911) og Tyndall (1820-1893), við Orðu Norðurstjörnunnar úr hendi Svíakonungs.
Huxley lét ekki strax sannfærast af „þroskunarkenningunni“ (e. development theory), eins og þróunarkenningin var oft nefnd. Hann gagnrýndi til dæmis harkalega Vestiges of the Natural History of Creation eftir Robert Chambers (1802-1871), en það var fyrsta ritið sem kom út um þróun lífvera á Bretlandi (1844), enda voru hugmyndirnar, sem þar voru settar fram, víða lausar í reipunum. Hann hafnaði líka þróunarhugmyndum Lamarcks (1744-1829) á þeirri forsendu að röksemdir fyrir þeim væru rýrar. Darwin lagði sig fram um að fá Huxley til liðs við sig. Hann var einn af örfáum trúnaðarmönnum, sem Darwin kynnti þróunarkenningu sína á meðan hún var í mótun, og Huxley varð brátt stuðningsmaður Darwins, þótt hann væri ekki frá upphafi sammála honum um allar skýringar hans, svo sem vægi náttúruvalsins. En þar kom að Huxley gekk öðrum fremur fram fyrir skjöldu til varnar kenningu Darwins, en hún varð einkum fyrir aðkasti frá bókstafstrúarmönnum, sem töldu að vonum vegið að boðskap Biblíunnar um sköpun mannsins í mynd Guðs.
Darwin var ævinlega hlédrægur, en mannfælni hans mun hafa aukist með árunum, og hann sótti aldrei mannfundi. Huxley tók því hvarvetna upp málstað hans og kallaði sig ‒ með réttu ‒ „varðhund Darwins“ (e. Darwin´s bulldog). Fræg eru orðaskipti þeirra Samuels Wilberforce (1805-1873) biskups á fundi um þróunarkenninguna á Náttúrusögusafni Oxford-háskóla 30. júní 1860, sjö mánuðum eftir að bók Darwins um uppruna tegundanna kom út. ‒ Í lok ræðu lagði biskupinn fyrir Thomas Huxley spurningu, sem gekk út á það, hvort hann væri kominn af apanum í föður- eða móðurætt. ‒ Huxley átti að hafa svarað spurningu biskups á þá leið, að hann teldi enga hneisu af því að vera kominn af öpum; öllu sneyplegra þætti sér ef hann vissi í tölu forfeðra sinna um mann sem beitti góðum gáfum til útúrsnúninga og hártogunar.3
Sem fyrr segir gat Thomas Huxley sér snemma á ævi gott orð fyrir þekkingu á líffærafræði og flokkun hrygglausra dýra. Síðar sneri hann sér að hryggdýrunum og fékkst þá einkum við aldauða dýr. Þar tók hann mið af þróun og skyldleika dýranna. Huxley leitaði að þróunartengslum út frá samanburði við aldauða dýr innbyrðis og við núlifandi stofna. Fiskar eins og skúfuggar og lungnafiskar, með tvenn pör af uggum, sem tengjast við hrygginn með beingrindum, samsvarandi mjaðmagrind og axlagrind á ferfættu hryggdýri, standa þannig nærri forfeðrum þessara landhryggdýra, en af þeim eru nú uppi froskdýr, skriðdýr, fuglar og spendýr. Eins rakti hann saman ættir fugla og skriðdýra og benti á tengilið, sem þá var nýfundinn, sem var öglirinn eða eðlufuglinn, Archaeopteryx. Hann skipti sér lítið af steingervingum og þróunarsögu spendýra, þegar frá er talin þróun hesta, asna og sebra nútímans af litlum skógardýrum í Ameríku, með fjórar tær á hverjum fæti og tennur lagaðar til að bíta lauf.
Mynd af Julian Huxley og afa hans Thomas H. Huxley en þeir eru báðir á vísindadagatali HÍ og Vísindavefsins fyrir árið 2011.
Huxley lét sig uppruna manna snemma varða. Margir virtir samtímamenn hans, einnig þeir sem aðhylltust þróunarkenninguna, töldu að maðurinn skipaði sérstöðu í náttúrunni. Huxley taldi að menn hefðu þróast á sama hátt og aðrar tegundir dýra. Í þessu var hann sammála Darwin og birti um það eitt þekktasta verk sitt, Evidence as to Man's Place in Nature, „Vitneskja um stöðu mannsins í náttúrunni“, árið 1863. Þar sýndi Huxley fram á það að líkami manns er ekki í neinum grundvallaratriðum frábrugðinn líkama mannapa eða annarra prímata. Þetta á líka við um heilann, en aðrir þóttust sjá í mannsheilanum parta, sem ekki ættu samsvörun í heila mannapa, hvað þá annarra dýra. ‒ Darwin var varkárari, dró að sér meira efni og tók sér lengri tíma, en niðurstaðan var hin sama. Bók hans, Descent of Man, „Ætterni mannsins“, kom út 1871.
Thomas Henry Huxley andaðist 29. júní 1895 að Eastbourne í Sussex á Englandi á 71. aldursári. Af Thomas Huxley eru ýmsir frægir menn komnir. Má þar nefna soninn Leonard, sem var rithöfundur, einkum þekktur fyrir ævisögur. Elsti sonur Leonards, Julian, var líffræðingur og átti drjúgan þátt í að sameina hugmyndir innan ýmissa fræða um þróun í heildarmynd snemma á 20. öld. Annar sonur Leonards, Aldous, var rithöfundur; frægasta verk hans er „framtíðarsýnin“ Brave New World. Hálfbróðir þeirra, Andrew Huxley, var kunnur vísindamaður og deildi með öðrum Nóbelsverðlaunum í læknisfræði 1963 fyrir störf að leiðni taugaboða og vöðvasamdrætti.
Heimildir:
1 Síðar, þegar Wharton Jones var kominn á efri ár, launaði Huxley honum dyggan stuðning með því að tryggja honum eftirlaun. 2Her Majesty's Ship. Þetta var á stjórnarárum Viktoríu drottningar, sem ríkti frá 1837 til 1901. 3 Þessi orðaskipti eru hvergi skráð í fundargerð, svo þau eru til í ýmsum útgáfum og engin leið að vita hver er rétt.
Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hver var Thomas H. Huxley og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 25. september 2012, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62840.
Örnólfur Thorlacius (1931-2017). (2012, 25. september). Hver var Thomas H. Huxley og hvert var framlag hans til vísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62840
Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Hver var Thomas H. Huxley og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 25. sep. 2012. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62840>.